Sótaðir kettir og sýnilega brugðið

Einum kattanna komið til bjargar.
Einum kattanna komið til bjargar. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

„Við vorum þarna rétt hjá í ræktinni þegar tilkynningin kom,“ segir Ólafur Jónsson, varðstjóri á A-vaktinni hjá Brunavörnum Suðurnesja, en hann er einn þeirra slökkviliðsmanna sem komu á vettvang þegar tilkynnt var um eld í íbúð á Ásbrú í Reykjanesbæ. Engan sakaði en þremur köttum var bjargað og er snarræði lögreglu og slökkviliðs að þakka fyrir það.

Frétt mbl.is: Kettir komu íbúum til bjargar

„Við fórum strax á vettvang ásamt lögreglu og sjúkrabíl. Húsráðandi var kominn út þegar við komum en kettirnir þrír voru inni. Okkar starf fólst í því, þegar við vissum að það væri enginn inni í íbúðinni nema þessi dýr, að rýma húsið,“ segir Ólafur, en 16 íbúðir eru í húsinu.

Slökkvistarf gekk að hans sögn vel, því slökkviliðið þekkir til íbúða sem þeirra þar sem eldurinn kviknaði. „Það var auðvitað mikill hiti og reykur sem mættu okkur en við vorum fljótir að slökkva eldinn í innréttingu í eldhúsinu. Þá fórum við strax í það að leita og fundum þessi dýr,“ segir Ólafur.

Köttunum þremur var komið út þar sem lögreglan tók við þeim, og segir Ólafur lögregluna hafa staðið sig með prýði. „Þeir fengu súrefni hjá okkur og fóru með kettina á dýraspítalann og allt tókst vel.“ Af dýraspítalanum er það að frétta að kettirnir eru í góðu ástandi miðað við það sem á undan er gengið, dálítið sótaðir og sýnilega brugðið, en allir að koma til.

Reykskynjarar virkuðu ekki

Ólafur segir áhyggjuefni að reykskynjarar í íbúðinni hafi sennilega ekki virkað sem skyldi. „Við heyrðum umræðu um það að sennilega hafi reykskynjarinn ekki virkað en það er í skoðun.“ Hann hvetur fólk til að hafa fleiri en einn reykskynjara í húsum sínum ef ske kynni að annar þeirra bili. „En kettirnir stóðu sig vel, þeir létu vita að það væri kominn reykur. Þeir fóru að ókyrrast og láta heyra í sér, þar sem húsráðandi var inni í herbergi með lokað að sér.“

Lögreglumenn gáfu köttunum súrefni eftir að þeim var bjargað úr …
Lögreglumenn gáfu köttunum súrefni eftir að þeim var bjargað úr brennandi íbúð. Víkurfréttir/Hilmar Bragi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert