Fjalla-Eyvindur í miðborginni?

Nútímalegi útilegumaðurinn í miðborg Reykjavíkur.
Nútímalegi útilegumaðurinn í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamenn hafa orðið sífellt algengari sjón á Íslandi undanfarin ár. Sjóaðar miðbæjarrottur eiga í mesta basli við að potast á milli pólfaraklæddra rútutúrista á Laugaveginum og staðir víðsvegar um landið sem á árum áður voru ekki heimsóttir nema af örfáum hræðum eru nú iðandi af lífi.

Ferðamennirnir eru eðli málsins samkvæmt eins mismunandi og þeir eru margir, þótt flestir eigi það sammerkt að klæða sig eins og Íslendingur myndi klæða sig ef það væri tíu gráðum kaldara. Ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is rakst á þennan skrautlega klædda ferðamann á ferli um miðborgina. Myndin var birt á forsíðu Morgunblaðsins í gær og höfðu nokkrir lesendur samband og vildu vita hver maðurinn væri. 

Því miður gaf maðurinn sig ekki á tal við ljósmyndarann okkar, en við á mbl.is vildum gjarnan ná tali af þessum óvenjulega klædda ferðamanni. Ef þú hefur upplýsingar um hver þessi maður er eða hvar hann heldur til væru allar ábendingar um það vel þegnar á netfangið netfrett@mbl.is eða í gegnum spjallið á Facebooksíðu mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert