„Ungt fólk er klárt og það mun ná þessu“

Friðrik Dór segir fundargestum frá sinni sýn á jafnrétti.
Friðrik Dór segir fundargestum frá sinni sýn á jafnrétti. mbl.is/ Styrmir Kári

„Það er endurnærandi að heyra unga menn segjast vera femínistar, ég hélt ekki að ég myndi lifa þann dag að heyra það.“

Lófaklappið dundi um leið og framkvæmdastýra UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka, sleppti þessu síðasta orði spjallfundar utanríkisráðuneytisins og UN Women á Íslandi um þýðingu HeForShe herferðarinnar. Hún vísaði þar til orða tónlistarmannsins Friðriks Dórs og tómstundafræðinemans Stefáns Gunnars sem báðir höfðu talað fyrir jafnrétti skömmu áður og hafið mál sitt á því að skilgreina sig sem femínista.

Þar sem fundargestir stóðu upp til að yfirgefa fundarsalinn Björtuloft í Hörpu eftir fundinn í gær heyrðist fleiri en einn ungur karlmaður þakka konum fyrir að hafa tekið sig með. Fundurinn var einmitt sérstaklega ætlaður til að vekja athygli karla á þeirra hlutverki innan jafnréttisbaráttunnar og svo virðist sem einhver augu hafi opnast örlítið meira en áður. En þó svo að máltækið segi að í upphafi skuli endinn skoða skulum við leyfa okkur að spóla til baka og skoða fundinn frá byrjun.

Vítahringur vinnumarkaðarins

Á spjallfundinum sögðu þeir Ólafur Þ. Stephensen, Friðrik Dór Jónsson og Stefán Gunnar Sigurðsson frá sinni sýn á jafnrétti kynjanna auk þess sem Madame Phumzile og Elizabeth Nyamayaro, skapari HeForShe herferðarinnar, sátu fyrir svörum.

Ólafur, sem er framkvæmdastjóri FA og stjórnarmeðlimur landsnefndar UN Women á Íslandi og HeForShe, opnaði fundinn með því að segja frá því hvernig hann hóf að láta sig jafnréttisbaráttuna varða fyrir 20 árum síðan þegar hann horfði upp á konur sem höfðu verið samferða honum í námi ganga á glerþakið. Sagði hann frá því hvernig hann gekk til liðs við hóp sem barðist fyrir rétti karla til fæðingarorlofs og því hvernig tilvist hefðbundinna kvennahlutverka heldur báðum kynjum í óæskilegum mótum.

Sagði hann að á atvinnumarkaði væru konur síður séðar sem jafn traust vinnuafl og menn þar sem þær bera hefðinni samkvæmt mesta ábyrgð á heimilinu. Karlar komist því í hærri stöður, fái betur borgað og ábyrgð á vinnumarkaði sem leiðir til þess að konur þeirra taki að sér meiri ábyrgð á heimilinu og þannig haldi vítahringurinn áfram.

„Þátttaka karla á heimilinu eða í störfum sem eru yfirleitt skilgreind sem kvennastörf er mjög nýtilkomin,“ sagði Ólafur. Hann sagði ljóst að ekki væri unnt að brjóta glerþakið án þátttöku karla en að það væri oft erfitt að útskýra fyrir körlum hvað þeir græða á jafnrétti kynjana. Hann átti þó ekki erfitt með það þegar til kastanna kom. „Ef það eru engin karla og kvennastörf getum við öll valið þann starfsvettvang sem við viljum. Ef karlar taka meiri þátt í uppeldi barna færir það með sér gríðarlegan tilfinningalegan arð.“

Kynjafræðin breytti viðhorfinu

Stefán Gunnar Sigurðsson, tómstundafræðinemi og starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Þróttheima, tók næstur til máls. Hann stóð upp úr stólnum sínum á sviðinu, kynnti sig sem femínista og sagði ástæðuna þess titils vera einfalda, hann kynni ekki að meta ójafnrétti og fyndist það í raun út í hött.

„Ég hef hinsvegar ekki alltaf verið femínisti,“ sagði Stefán og vísaði til fyrri hluta menntaskólagöngu sinnar. „Þá var ég ráðvilltur, kvenréttindi höfðu aldrei verið neitt mál í mínum huga þar sem ég var drengur í vestrænulandi og naut þar með forréttinda.“ 

Sagði Stefán að kynjafræðitímar í skólanum hafi hinsvegar breytt viðhorfi hans og að það hafi verið frábær og sorgleg reynsla í senn. Það hafi slegið hann að átta sig á því hversu margar konur eru fórnarlömb grimmilegs ofbeldis, neyddar til að giftast eldri mönnum, fá minna borgað o.s.frv.

Sagðist hann í dag gera sitt besta til að tala við fólk um femínisma. Hann stoppi þó ekki fólk á götunni heldur ræði við vini sína og skyldmenni auk þess sem hann hvetji til umræðu meðal unglinganna í Þróttheimum, stoppi þá af þegar þeir segja eitthvað niðrandi gagnvart konum og spyrji gagnrýnna spurninga.

„Ég lít á það sem skyldu mína sem ungs manns sem býr við forréttindi að gera það,“ sagði Stefán. „Ef fleiri menn verða HeForShe þurfum við vonandi ekki að halda svona fund aftur eftir 10 ár. Jafnrétti snertir okkur öll., bæði karla og konur.“

Framkvæmdastýra UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka.
Framkvæmdastýra UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka. mbl.is/Styrmir Kári.

Vill nýta forréttindin á uppbyggilegan máta

„Ég heiti Friðrik Dór Jónsson og ég er tónlistarmaður. En ég er líka maki, faðir, sonur og bróðir kvenna sem eru mér innblástur og fyrirmyndir.“ sagði næsti framsögumaður sem viðstaddir, einna flestir fólk undir þrítugu og jafnvel á menntaskólaaldri, þekktu vel.

„Síðastliðinn áratug hef ég þroskast úr dreng í ungan mann og á þeim tíma hafa augu mín opnast fyrir hlutum sem ég hafði sjaldan hugsað um,“ hélt Friðrik áfram og eins og Stefán, sagði hann að sem hvítur maður í vestrænu landi byggi hann við gríðarleg forréttindi.

„Ég get notfært mér forréttindi mín til að berjast gegn ójafnrétti með því að fá aðra karlmenn til að átta sig á því sama, forskot okkar er ekki sanngjarnt og það er á okkar ábyrgð að breyta því. Við þurfum að átta okkur á því hversu mikil forréttindi við búum við.“

Sagðist hann fullviss um að þegar fólk sleppti takinu af eigin hroka með því að viðurkenna forréttindi sín þá finnist engum þau ásættanleg. Kom hann inn á önnur forréttindi í sínu lífi þar sem hann, sem nútíma faðir og tónlistarmaður, hefur mikinn tíma til að eyða með dóttur sinni og að það sé hann þakklátur fyrir. Sagðist hann vonast til þess að í framtíðinni þyrfti hann ekki að útskýra fyrir dóttur sinni af hverju hún byggi við lægri hlut en karlmenn.

„Ég hitti mikið af ungu fólki í starfi mínu, ég ákvað fyrir löngu að ég myndi reyna að nota stöðu mína til að bera áfram þau skilaboð sem mér finnst mikilvæg til þeirra sem vilja hlusta á mig,“  sagði Friðrik. „Ég hef reynt að planta því fræi í hugum ungs fólks að þetta sé mikilvægt.“

Sagði hann ung fólk vera framtíðina en alið upp í kynjaðri umræðuhefð. Þegar ung fólk segi hluti sem mismuni fólki vegna kyns þeirra sé nauðsynlegt að ræða það sem sagt er og útskýra af hverju það er rangt að segja slíka hluti. Þannig megi beina því til betri vegar.

„Ungt fólk er klárt og það mun ná þessu“

Karlar hafa lyklavöldin

Eftir að herramennirni þrír höfðu lokið máli sínu sátu Madame Phumzile og Elizabeth Nyamayaro fyrir svörum og ræddu um HeForShe verkefnið og baráttuna í heild sinni. Lögðu þær báðar áherslu á mikilvægi þess að fá karlmenn til liðs við konur í baráttunni fyrir jafnrétti og sögðu þá að miklu leiti hafa haldið sig fjarri baráttunni í gegnum árin.

„Konur hafa reynt að opna dyrnar fyrir öðrum konum en þær komast ekki allar út. Fyrir innan hurðina er karlar sem halda á lyklinum og ef við getum sannfært þá opna þeir dyrnar sjálfir og við þurfum ekki að berjast lengur,“ sagði Madame Phumzile.

Nyamayaro bauð gestum upp á dæmisögu sem átti sér stað í raunveruleikanum aðeins fáeinum vikum eftir að HeForShe átakinu var hrint úr höfn. Skipuleggjendum þess barst tölvupóstur frá manni sem bjó á afskekktum stað í fátæku landi. Sagðist hann hafa heyrt konuna í næsta húsi gráta í áraraðir þegar maðurinn hennar beitti hana ofbeldi en að hann hefði hunsað það. Tveimur vikum fyrr hafi hann hinsvegar heyrt í Madame Phumzile í útvarpinu og skilið skyldu sína. Næst þegar hann heyrði konuna gráta gekk hann yfir til nágrannans og tók hann á teppið. Síðan þá, hefði konan aldrei grátið.

Nyamayaro sagði mikilvægt að safna slíkum sögum, sögum af körlum sem segðu feðraveldinu stríð á hendur. Madame Phumzile tók undir það sjónarmið.

 „Við viljum ekki að konur hafi það betra innan feðraveldisins, við viljum feðraveldið í burt. Þeir sem njóta forréttinda feðraveldisins verða að hafna því. Stundum eru forréttindin ekki augljós fyrir þeim sem hafa þau. HeForShe reynir að gera forréttindin augljós svo karlar geti gert eitthvað til að fjarlægja þau.“

Um 200 manns voru í salnum alls, mest megnis ungt …
Um 200 manns voru í salnum alls, mest megnis ungt fólk sem komið hafði sérstaklega til að hlýða á umræðurnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég þarf 100 prósent frá Íslandi“

Í lokin hvatti Madame Phumzile íslenska karlmenn til þess að skrá sig sem HeForShe á heimasíðu verkefnisins. Sagði hún að þó svo að Ísland leiði listann í skráningum miðað við höfðatölu geti landið enn gert betur. „Ég þarf 100 prósent frá Íslandi,“ sagði Madame Phumzile og þó svo að glettnin hafi skinið úr augum hennar var öllum viðstöddum ljóst að gamninu fylgdi nokkur, ef ekki full alvara.

Eins og sagði í byrjun þessarar greinar heyrði blaðamaður nokkra unga karlmenn þakka konum fyrir að hafa tekið sig með á viðburðinn en framkvæmdastýran undirstrikaði einmitt mikilvægi þess undir lok hans. „Við verðum að taka fleiri karlmenn með okkur á svona samkomur. Annars erum við bara að tala við okkur sjálfar, messa yfir kórnum.“

Sagði hún marga vera með háa staðla þegar kæmi að jafnrétti og að slíkir staðlar gætu gert fólki erfitt fyrir að taka fyrsta skrefið og þannig komið í veg fyrir að það berðist fyrir jafnrétti eða tæki þátt í viðburðum á við þennan.

„Ef þeir spyrja einfeldningslegra spurninga skulum við hafa þolinmæðina til að fara með þeim í gegnum þær. Við getum snúið meiri hluta fólks til betri vegar,“ hélt hún áfram. „Þróum og bætum tólin til að tala við fólk. Pössum upp á að femínistahreyfingin sé ekki bara fyrir fólkið sem hefur verið þar lengst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert