Prestar vilja afnema samviskufrelsi

Lagt er til að þingið álykti að opinberum embættismönnum þjóðkirkjunnar …
Lagt er til að þingið álykti að opinberum embættismönnum þjóðkirkjunnar verði ekki heimilt að synja tveimur einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar. AFP

Ályktun um afnám hið svokallaða samviskufrelsis verður lögð fram á yfirstandandi kirkjuþingi. Lagt er til að þingið álykti að opinberum embættismönnum þjóðkirkjunnar verði ekki heimilt að synja tveimur einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar uppfylli þeir lögformleg skilyrði þess að ganga í hjúskap að öðru leyti. Guðrún Karls Helgudóttir, prestur í Grafarvogskirkju, er framsögumaður ályktunarinnar.

Ólöf Nordal svaraði skriflegri fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna, í lok september og þar sagði hún að inn­an­rík­is­ráðuneytið hefði ekki fengið nein­ar ábend­ing­ar um að prest­ar þjóðkirkj­unn­ar hefðu neitað sam­kynja pör­um um þjón­ustu á grund­velli meints sam­visku­frels­is þeirra. Telur hún presta ekki mega mis­muna á grund­velli kyn­hneigðar frek­ar en aðra op­in­ber­a emb­ætt­is­menn.

Nokkuð hefur verið rætt um hjónavígslur að undanförnu. Ungir sjálfstæðismenn lögðu til á landsfundi flokksins um helgina að hjónavígslur færist alfarið í hendur sýslumannsembætta þannig að tryggt yrði að hinsegin fólk gæti í öllum tilvikum gengið í hjónaband.

Brynjar Níelsson, þingmaður flokksins, sagði nýlega að rétt væri að taka löggerninginn alfarið úr höndum forstöðumanna trúfélaga „svo þeir geti blessað hjónin eða hjónaefnin eftir því sem samviskan býður þeim.“

Þá hefur Sigríður Guðmarsdóttir, prófastur í Sør Helgeland prófastdæmi á Hálogalandi í Noregi, einnig fjallað um samviskufrelsi á vefsíðu sinni. 

Ekki í reglum þjóðkirkjunnar eða lögum landsins

„Kirkjuþing ályktar að opinberum embættismönnum Þjóðkirkjunnar sé ekki heimilt að synja tveimur einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar uppfylli þeir lögformleg skilyrði þess að ganga í hjúskap að öðru leyti. Kirkjuþing lítur á það sem mismunun og ekki í anda kærleika Krists að neita fólki um þjónustu á þeim forsendum.“

Þannig hljómar ályktun þeirra Guðrúnar Karls Helgudóttur, Guðbjargar Arnardóttur, Ragnheiðar Ástu Magnúsdóttur, Vigfúsar Bjarna Albertssonar og Höllu Halldórsdóttur sem lögð verður fram á kirkjuþingi. Þingið hófst á föstudaginn og lýkur á miðvikudag en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær ályktunin verður lögð fram.

Í greinargerð ályktunarinnar segir að allir einstaklingar á Íslandi njóti stjórnarskrárvarins frelsis til að fylgja eigin samvisku. „Þar hafa prestar Þjóðkirkjunnar ekki ríkara frelsi en opinberir starfsmenn eða aðrir þegnar þessa lands. Kirkjuþing ályktar að engar reglur eru í gildi hjá Þjóðkirkjunni eða í lögum landsins sem heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar,“ segir í greinargerðinni.

Þá er vísað í nýlegt svar Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur um þjónustu presta og mismunun á grundvelli kynhneigðar.

„Sem opinberir starfsmenn mega prestar ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 70/1996 skulu sérákvæði haldast í lögum sem öðruvísi mæla um réttindi og skyldur einstakra flokka starfsmanna. Í IV. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993, með síðari breytingum, eru ákvæði um hjónavígslu. Í 22. gr. laganna er fjallað um rétt til hjónavígslu og skyldu prests til að framkvæma hjónavígslu. Þar segir í 1. mgr. að hjónaefni eigi rétt á að stofna til hjúskapar fyrir borgaralegum vígslumanni, hvort sem þau eiga kröfu á kirkjulegri hjónavígslu eða ekki. Í 2. mgr. er ákvæði um að ráðherra geti, að fengnum tillögum biskups, sett reglur um hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og nánari reglur um hvenær þeim sé þetta heimilt.“

Í greinargerðinni segir einnig að innanríkisráðherra telji að tilefni sé til að biskup geri tillögur að því hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær þeim sé það heimilt. „Kirkjuþing lítur svo á að sömu reglur gildi um presta og borgaralega vígslumenn þegar kemur að hjónavígslu enda séu þeir opinberir embættismenn og sé því ekki heimilt að neita pörum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar. Því er ekki tilefni til að setja sérstakar reglur um presta sem vígslumenn,“ segir að lokum í greinargerðinni.

Ályktun um afnám samviskufrelsis

Frétt mbl.is: Spyr um samviskufrelsi presta

Frétt mbl.is: Prestar megi ekki mismuna

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir Ljósmynd/Grafarvogskirkja
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert