Píratar með 46,3% fylgi hjá 18-29 ára

Píratar á fundi.
Píratar á fundi. mbl.is/Styrmir Kári

Píratar mælast með yfirburðafylgi hjá aldurshópnum 18-29 ára í nýrri könnun MMR. Sögðust 46,3% aðspurðra á þessum aldri styðja Pírata en til samanburðar sögðust 15,5% styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Næst kom Björt framtíð með 9,6% stuðning, þá Vinstri grænir með 9% stuðning, svo Samfylkingin með 8% stuðning og svo Framsóknarflokkur með 5,3% stuðning.

Lætur því nærri að Píratar hafi mælst með 9 sinnum meira fylgi hjá 18-29 ára en Framsóknarflokkurinn.

Fylgi Pírata hjá 30-49 ára var 38,7%, 23,8% hjá 50-67 ára og 15,1% hjá 68 ára og eldri.

Til samanburðar var fylgi Sjálfstæðisflokks í þessum aldurshópum 21,3% (30-49 ára), 26,4% (50-67 ára) og 25,9% (68 ára og eldri). 

Píratar sterkir í öllum aldurshópum

Þá mælist Framsóknarflokkurinn með mest fylgi hjá 50-67 ára, eða 13,9%, Samfylkingin með mest fylgi hjá 68 ára og eldri, eða 28,3%, og VG með mest fylgi hjá 50-67 ára, eða 14,2%. Björt framtíð mældist hins vegar með mest fylgi hjá 18-29 ára, eða 9,6%.

Má af þessum tölum sjá að Píratar eru hlutfallslega sterkir hjá öllum aldurshópum.

Um var að ræða netkönnun hjá MMR sem var gerð fyrr í þessum mánuði og hefur sundurgreint fylgi þessa aldurshóps ekki áður verið birt í fjölmiðlum.

Stuðningur ungs fólks við Sjálfstæðisflokkinn fer minnkandi

Fram kemur í fréttaskýringu um málið í Morgunblaðinu í dag að samkvæmt íslensku kosningarannsókninni var fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal 18-29 ára kjósenda 47% árið 1999, 30% árið 2003, 35% árið 2007 og 25% árið 2009. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa ekki verið birtar vegna þingkosninganna 2013.

Rætt er við Ólaf Þór Gylfason, framkvæmdastjóra MMR, Markaðs- og miðlarannsókna, í blaðinu.

Ólafur Þór bendir á að samkvæmt íslensku kosningarannsókninni hafi 27% kjósenda Sjálfstæðisflokksins verið yngri en 30 ára árið 1999, 23% árið 2003, 19% árið 2007 og 22% árið 2009. Til samanburðar hafi 19% kjósenda flokksins verið undir þrítugu samkvæmt könnun MMR fyrr í þessum mánuði.

Ólafur Þór segir það munu hafa áhrif á útkomu þingkosninganna vorið 2017 hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að snúa við minnkandi fylgi hjá ungu fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert