12 sagt upp hjá 365 miðlum

Höfðustöðvar 365 miðla.
Höfðustöðvar 365 miðla. mbl.is/Ómar Óskarsson

12 manns hefur verið sagt upp hjá 365 miðlum. Um er að ræða níu karlmenn og þrjár konur, en flestir starfa innan dagskrársviðs sem Jón Gnarr stýrir. Þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við mbl.is. Aðspurður um ástæður uppsagnanna segir hann að um sé að ræða skipulagsbreytingar á sviðinu með breyttri sýn sem Jón stýri meðal annars. Rúv sagði frá málinu.

Undir dagskrársviði heyrir sjónvarp og útvarp hjá 365 miðlum, auk þess sem íþróttadeild er þar undir. Sævar segir þó engar uppsagnir hafa verið þar.

Samhliða þessum uppsögnum hefur Hrefna Lind Heimisdóttir verið ráðin sem ritstjóri dagskrársviðs og mun hún stýra deildinni ásamt Jóni að sögn Sævars. Þá mun Hrefna stýra nýrri handritsdeild sem verður sett á laggirnar hjá fyrirtækinu.

Sævar staðfestir einnig að Eva Georgsdóttir hafi verið ráðin sem framleiðslustjóri og Jóhanna Margrét Gísladóttir sem dagskrárstjóri.

Þeir starfsmenn sem fengu uppsögn í dag hafa mjög mismunandi starfsreynslu að sögn Sævars, en inn á milli er fólk með langa starfsreynslu. Hann segist ekki geta svarað spurningum um hvort frekari breytingar eða uppsagnir séu framundan, en að ekkert hafi verið ákveðið um það að svo stöddu. Hjá fyrirtækinu vinna um 400 manns í dag.

Uppfært 16:04: Samkvæmt heimildum mbl.is voru þau Ásgeir Erlendsson og Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir meðal þeirra sem var sagt upp, en Ásgeir hefur starfað fyrir Ísland í dag þar sem Sigríður hefur einnig verið með innslög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert