Deilt um innihald SALEK samkomulagsins

Salek-hópurinn skrifar undir.
Salek-hópurinn skrifar undir. mbl.is/Styrmir Kári

Með SALEK samkomulaginu er samningsréttur stéttarfélaganna skertur gríðarlega. Þetta kemur fram í pistli Vilhjálms Birgissonar, formanns VLFA í dag. Segir hann að lögmenn félagsins muni nú láta reyna á það fyrir dómstólum hvort samkomulagið standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Forseti ASÍ segir það hinsvegar víðs fjarri og vísar því á bug að samningsrétturinn sé skertur. 

„Þetta SALEK samkomulag verður ekki öðruvísi skilið en að verið sé að skerða samningsrétt stéttarfélaganna gríðarlega. Enda segir í samkomulaginu að mótuð hafi verið sameiginleg launastefna til ársloka 2018 og Samtök atvinnulífsins, ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga skuldbindi sig til að framfylgja þessari launastefnu gagnvart öllum þeim hópum og einnig þeirra sem standa utan samkomulagsins,“ skrifar Vilhjálmur.

Leggur hann áherslu á að Alþýðusambandið sé búið að gera rammasamkomulag við þessa aðila, „þar sem samningsrétturinn er nánast tekinn af stéttarfélögunum og það án þess að hafa neitt umboð til þess eða að kosningar hafi verið framkvæmdar til að veita slíkt umboð. Þessi vinnubrögð eru stórundarleg þó ekki sé fastar að orði kveðið í ljósi þess að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur hafa stéttarfélögin frjálsan samningsrétt.“

Búið að ákveða launahækkanir fyrirfram 

Að sögn Vilhjálms er nú, með SALEK samkomulaginu, búið að ákveða fyrirfram hverjar launahækkanir ættu að vera „þrátt fyrir að samningsrétturinn sé sjálfstæður hjá VLFA eins og öllum öðrum stéttarfélögum á Íslandi samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.“ Bendir hann á að á fundi með forsvarsmenn launanefndar sveitarfélaganna og ríkissáttasemjara í gær hafi komið í ljós að búið væri að ákveða að svigrúm til launahækkana væri einungis rúm 20% því 11,4% áttu að dragast frá vegna fyrri launahækkana sem komið hafa fram í kjarasamningum frá nóvember 2013.

„Það magnaðasta í þessu öllu saman er að formaður VLFA fékk tölvupóst frá forsvarsmönnum launanefndar sveitarfélaga í gærkvöldi þar sem skýrt var frá því að aðilar rammasamkomulagsins hefðu komið saman og ákveðið að breyta viðmiðum frá árinu 2013 hvað varðar sveitarfélögin sem gerði það að verkum að frádrátturinn fór úr 11,4% í 6,3%. Formaður spyr sig eðlilega: Er þetta tilviljun að aðilar SALEK hópsins hafi verið kallaðir saman og frádrátturinn sé lækkaður úr 11,4% í 6,3%. Nei, fjandakornið ekki og má ætla að það hafi gripið um sig einhver hræðsla hjá þessum aðilum sem hljóta að sjá það hvernig þeir hafa skert kjarasamningsrétt sjálfstæðra stéttarfélaga,“ skrifar Vilhjálmur. Hann bætir við að fleira hafi verið rætt inni í „þessum reykfylltu bakherbergjum SALEK hópsins.“

„Algjörlega galið“

Hafi hann heyrt af hugmyndum þess efnis að hækka eigi iðgjöld í samtryggingarlífeyrissjóðinn úr 12% upp í 15,5% á kostnað almennra launahækkana.

„Formaður trúir ekki öðru en að þessar breytingar fari klárlega í almenna atkvæðagreiðslu því hann er sannfærður um að það er enginn vilji á meðal launafólks að setja meira inn í þá hít sem lífeyrissjóðskerfið er á meðan kerfið hefur ekki getað sýnt fram á sjálfbærni,“ skrifar hann og bætir við að ef það er til svigrúm hjá atvinnurekendum að hækka iðgjöld væri miklu nær að nota þá fjármuni annað hvort til almennra launahækkana eða þá að þeir verði eyrnamerktir í séreignarlífeyrissjóð hvers launamanns.

„En að ætla sér að hækka iðgjöldin um 3,5% í áföngum á kostnað almennra launahækkana er algjörlega galið því hugmyndir eru líka um að hækka töku lífeyris úr 67 árum upp í 70 ár í þrepum og hjá opinbera geiranum úr 65 árum upp í 67 ár. Það er bjargföst skoðun formanns að það sé enginn vilji hjá launafólki til að setja meira inn í samtryggingarþátt lífeyrissjóðsins. Við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum í hruninu og búið er að skerða lífeyrisréttindi um 200 milljarða síðan þá.“

Í lok pistilsins skorar Vilhjálmur á allt launafólk að vera vel vakandi yfir því sem er að gerast á íslenskum vinnumarkaði og segir það markmið SALEK hópsins að festa hér í sessi samræmda láglaunastefnu til eilífðarnóns. „Stöndum saman öll sem eitt og komum í veg fyrir að slíkt gerist.“

Ekki stefnan að hrófla við samningsrétti einstakra stéttarfélaga

Í tilkynningu frá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ er ásökunum Vilhjálms varðandi SALEK samkomulagið vísað á bug. Gylfi segir það víðs fjarri og eigi sér enga stoð í innihaldi samkomulagsins að það brjóti í bága við ákvæði vinnulöggjafarinnar og skerði samningarétt „Það er ekkert í því samkomulagi sem hægt er að túlka með þessum hætti, enda er það ekki stefna Alþýðusambandsins né aðildarsamtaka þess að hrófla við samningsrétti einstakra stéttarfélaga,“ skrifar Gylfi. 

„Það verður að viðurkennast, að þessi afstaða formanns VLFA kemur undirrituðum nokkuð á óvart m.v. þær umræður sem fram hafa farið innan okkar hreyfingar undanfarið. Tilvísun í ,,reykfyllt bakherbergi‘‘ og ámóta dramatík eru að sama skapi stórfurðulegar. Hann veit miklu betur.“

Heimilt að endursemja í ljósi breyttra aðstæðna

Hann segir að í kjarasamningum flest allra aðildarfélaga ASÍ á almennum vinnumarkaði frá því í maí eru þegar skýr forsenduákvæði sem kveða á um að ef aðrir hópar semja um meiri launahækkanir en þeirra samningar kveða á um verði þessum aðildarfélögum heimilt að taka launalið samninganna upp og endursemja í ljósi breyttra aðstæðna. „Þetta ákvæði er einnig að finna í kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness, sem gerður var í samfloti 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands í maí sl.,“ skrifar Gylfi og bætir við að allar samninganefndir aðildarsambanda ASÍ og félaga með beina aðild hafa beint því til samninganefndar ASÍ að tryggja félagsmönnum okkar á almennum vinnumarkaði sambærilegar hækkanir og um hefur verið samið á opinberum vinnumarkaði, eða dæmt með gerðardómi.

Að þessu verkefni hefur samninganefnd ASÍ unnið undanfarna mánuði „í ágætu og opnu samráði“ að sögn Gylfa, við samninganefndir aðildarsambandanna og tókst það á endanum, í nánu samstarfi við BSRB, að sameinast um fyrrgreinda sameiginlega launastefnu til ársloka ársins 2018, eða til loka þess samningstímabils sem þegar var búið að semja um.

Felur engan vegin í sér afsal samningsréttar

„Það getur vel verið að formanni VLFA finnist það gagnrýnivert að móta stefnu, hvað þá að þurfa fylgja henni. En það hlýtur hins vegar að flokkast undir eðlilegar væntingar beggja samningsaðila, að þeir sem að mótun stefnunnar koma fylgi henni í framhaldinu. Það felur engan vegin í sér afsal samningsréttar né að samningaréttur hafi verið af aðildarsamtökunum tekin. Nóg höfum við innan verkalýðshreyfingarinnar gagnrýnt m.a. stjórnvöld og á stundum atvinnurekendur fyrir að fylgja ekki eftir þeirri stefnu sem aðilar hafa orðið ásáttir um.“

Í tilkynningunni kemur fram að næsta verkefni í þessu ferli sé að semja við viðsemjendur félaganna með hliðsjón af þessari launastefnu. „Hún gefur okkur svigrúm og tækifæri, en samningsréttur til slíkra viðræðna fer að sjálfsögðu eftir ákvæðum bæði okkar skipulags og á grundvelli vinnulöggjafarinnar,“ skrifar Gylfi og bætir við að flest öll aðildarfélög ASÍ á almennum vinnumarkaði hafi þegar falið samninganefnd ASÍ umboð vegna um 85 þúsund félagsmanna  Alþýðusambandsins á almennum vinnumarkaði gagnvart Samtökum atvinnulífsins, þar með talið Verkalýðsfélag Akranes.

Nefnir hann að Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið hafi þegar samið við ríkið, iðnaðarmenn eru í viðræðum við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga, Starfsgreinasambandið (án Verkalýðsfélags Akranes) á í viðræðum við sveitarfélög utan Reykjavíkur, Efling á í viðræðum við Reykjavíkurborg og Verkalýðsfélag Akranes á í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna félagsmanna þess hjá Akraneskaupstað. „Allar þessar samningaeiningar hafa fullt forræði á sínum málum og geta algerlega ráðið sínum málum sjálf. Það var mat samninganefndar ASÍ, að höfðu samráði við samninganefndir einstakra aðildarsambanda og félaga, að umrædd launastefna myndi auðvelda þeim gerð kjarasamninga og tryggja betur hag þeirra félagsmanna, en á endanum er það á ábyrgð fyrrgreindra samningaeininga að taka endanlega ákvörðun,“ skrifar Gylfi.

Þarf alltaf að horfa til heildarinnar

Hann lýkur pistli sínum þannig að minna á að ekkert á vinnumarkaði gerist án þess að horft sé til heildarinnar.  

„Þannig lá það t.d. alveg skýrt fyrir, að til þess að tryggja launafólki á almennum vinnumarkaði, þ.m.t. þorra félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness, sambærilegar launahækkanir og um hefur verið samið síðan í vor, þurfti að skoða málið í heild sinni bæði á hinum opinbera og almenna vinnumarkaði. Það þurfti að móta sameiginlega sýn á hvar við vildum vera í árslok 2018. Án þess hefði ósköp einfaldlega ekkert samkomulag orðið og þá hefði að öllum líkindum komið til uppsagna kjarasamninga í febrúar vegna forsendubrests og ekkert samkomulag um leiðréttingu kjara þeirra 85 þúsund félagsmanna sem starfa á almennum vinnumarkaði. Hér þurftu samninganefndir því að horfa til hagsmuna fjöldans, en ekki einungis afmarkaðs hóps.“

Vilhjálmur Birgisson er formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson er formaður VLFA. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert