Forsetafrúin í Cu Chi stríðsgöngunum

Dorrit Moussaieff forsetafrú fer niður í stríðsgöngin í gegnum op …
Dorrit Moussaieff forsetafrú fer niður í stríðsgöngin í gegnum op sem hulið var laufi á sínum tíma. Ljósmynd af vef forseta.is

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Dorrit Moussaieff, forsetafrú, eru nú stödd í opinberri heimsókn í Víetnam. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra tekur einnig þátt í heimsókninni en með henni verður lagður grunnur að víðtækari tengslum Íslands við Asíu.

Lögð er áhersla á að efla samvinnu Íslands og Víetnam á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu en Víetnamar leggja nú mikla áherslu á aukna tæknivæðingu í fiskirækt og vinnslu. Samkæmt vef forseta verður jafnframt gengið frá samkomulagi milli þjóðanna um aukna samvinnu á sviði jarðhitanýtingar en mikill áhugi er á því í Víetnam að efla þann þátt í orkubúskap landsins.

Í gær heimsóttu þau Ólafur og Dorrit ásamt íslensku sendinefndinni Cu Chi stríðsgöngin sem staðsett eru um 60 kílómetra frá Ho Chi Minh borg. Göngin sem eru um 250 kílómetrar á lengd voru notuð í fimmtán ár í átökum Víetnama við Bandaríkin. Göngin gegndu lykilhlutverki í árangri frelsisbaráttunnar en í þeim földu Víetnamar sig gegn ágangi Bandaríkjamanna. Göngin eru afar flókin en í gegnum þau fóru samskipti fram, birgðaflutningar og öll þjónusta.

Samkvæmt vefnum Tuoitrenews 5 krafðist Dorrit þess að fá að fara niður í göngin til þess að upplifa það hvernig fólkið lifði í göngunum á þessum tíma. Starfsmenn svæðisins ráðlögðu Dorrit að fara frekar í göngin sem hafa verið endurbyggð fyrir túrista en Dorrit lét ekki segjast og fór niður í upprunalegu göngin.

Meðfylgjandi eru myndir af forsetafrúnni í göngunum en hún sagði að þessi reynsla væri afar eftirminnileg.

Í morgun átti forsetinn morgunverðafund með borgarstjóra Ho Chi Minh borgar Le Oang Quan sem lýsti yfir ánægju sinni með heimsóknina. Á dagskránni hjá þeim Ólafi og Dorrit síðar í dag er að heimsækja Mekong svæðið í Víetnam og kynna sér atvinnulíf og lífshætti bænda og sjómanna sem og búsetuskilyrðin við síkin í nágrenni hins mikla fljóts.  

Einar inngöngudyr hinna viðamiklu jarðganga skoðaðar.
Einar inngöngudyr hinna viðamiklu jarðganga skoðaðar. Ljósmynd af vef forseta.is
Forseti skrifar í gestabók við Cu Chi göngin.
Forseti skrifar í gestabók við Cu Chi göngin. Ljósmynd af vef forseta.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert