Varúð! Ekki fyrir viðkvæmar sálir!

Frank Zappa, stofnandi sveitarinnar The Mothers of Invention, líkti reglum …
Frank Zappa, stofnandi sveitarinnar The Mothers of Invention, líkti reglum um viðvörunarmiða við ritskoðun. The Picture Desk

Orð eins og frelsi, gagnsæi og tjáningarfrelsi hafa nánast verið á hvers manns vörum um langt skeið. Ekki síst hrjóta þau oft úr munni pólitíkusa, enda láta þau vel í eyrum margra. Andstæðurnar höft, ógagnsæi og ritskoðun hljóma ekki eins vel.

En flokkast það sem ritskoðun að láta varnaðarorð fylgja afurðum listamanna sem kynnu að særa siðferðisvitund fólks og fylla það hryllingi? Í Bandaríkjunum var á sjötta og níunda áratug liðinnar aldar hart deilt um teiknimyndablöð og tónlist sem hverfðist um kynlíf og ofbeldi.

Gríðarlega metnaðargjarn, ungur maður drepur föður sinn. Síðan kvænist hann móður sinni og eignast með henni nokkur börn. Ungi maðurinn öðlast mikil völd, en verður um síðir skelfingu lostinn vegna gjörða sinna. Angistin ristir svo djúpt að hann sker úr sér augun. Eiginkonan sem jafnframt er móðir hans hengir sig.

Börnin verða líka illa úti, ein dóttirin þó sýnu verst því hún verður tilfinningalegt úrhrak. Heldur þú, lesandi góður, að stóru kvikmyndaverin berðust um réttinn að slíkri sögu sem vitað væri að flestum þætti sori af verstu sort og særði siðferðiskennd þeirra líkt og kannski klámfengnar blóðslettu-bíómyndir?

Á þessa leið hefst grein sem nýlega birtist í The New York Times og fjallar um tilgangsleysi þess að setja viðvörunarmiða á eða banna ýmsar afurðir listamanna sem hugsanlega gætu sært viðkvæmar sálir. Yrðu viðbrögð fólks önnur ef höfundur sögunnar héti Sófókles og söguhetjan væri óheillakóngur að nafni Ödipus?

Teldist sagan þá ekki lengur sori heldur æðri list?, spyr blaðið og telur víst að þrátt fyrir að sagan sé virkilega viðurstyggileg myndu margir svara játandi. En ætti þá að merkja hana sem slíka til að vara grandalausa við? Ef sú yrði raunin, væri þá einhver munur á varnaðarorðum og ritskoðun?

Varnaðarorð eða ritskoðun?

Vangavelturnar í fyrrnefndri grein, sem hér er lauslega endursögð, eru um margt athyglisverðar. Þar segir að Bandaríkjamenn hafi í áratugi reynt að gera greinarmun á varnaðarorðum og ritskoðun. Spurningin speglist til dæmis í nýjasta framlagi Retro Report, heimildamynda þar sem farið er yfir helstu fréttaviðburði sögunnar og eftirmál þeirra.

Sjónum hefur verið beint að meiriháttar menningarstríði, annars vegar vegna teiknimyndabóka með blóðugu ívafi á sjötta áratug liðinnar aldar og hinsvegar ofbeldisfullra rokklaga á kynferðislegum nótum á níunda áratugnum. Hvort tveggja leiddi til vitnaleiðslna í öldungadeild þingsins og í kjölfarið afgerandi breytinga í markaðssetningu.

Á sjötta áratugnum lutu Bandaríkin ægivaldi menningarvita hvað teiknimyndablöð, sem fjölluðu um hrylling og glæpi, áhrærði. Ástandinu var síðar lýst sem siðferðilegri skelfingu. Fremstur í flokki fór geðlæknirinn Fredric Wertham, sem varaði eindregið við slíkum blöðum og sagði þau leiða börn út í afbrot, fíkn og til ævarandi glötunar.

Fyrir tveimur árum fullyrti prófessor við Illinois-háskóla í fræðigrein að Wertham hefði hreinlega logið. Engu að síður drottnaði hann yfir umræðunum með ófyrirséðum afleiðingum áratugum saman. Teiknimyndablöð hurfu af markaðnum í stórum stíl og komið var á fót Comic Code Authority, yfirvaldi sem með lögum gerði teiknimyndablöðum skylt að fara eftir ströngum siðareglum. Lögunum var breytt, yfirleitt milduð, annað slagið í áranna rás þar til þau liðu undir lok árið 2011.

Hroðanum haldið að ungmennum

Umræða um óheflaða tónlist með kynferðislegri skírskotun náði hámarki á þinginu í september 1985. Fyrr á árinu hafði hópur kvenna, sem voru tengdar inn í pólitíkina, stofnað Parents Music Resource Center, enda hafði popptónlist sem mærði sjálfsfróun og plötualbúm með mynd þar sem þorskstykki voru sneidd með keðjusög, misboðið þeim gróflega.

Forsprakki hópsins var Susan Baker, eiginkona James A. Baker III, sem á þessum tíma var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ronalds Reagans. Engin var þó skeleggari í framgöngu en Tipper Gore, þáverandi eiginkona Al Gore verðandi varaforseta Bandaríkjanna. Hún mun hafa orðið skelfingu lostin yfir tónlist í þessum dúr sem dóttir hennar kom með inn á heimilið. Tipper Gore varð andlit baráttunnar gegn, að hennar mati, kaldrifjuðum hljómplötuframleiðendum sem héldu hroðanum að ungmennum.

Hópurinn krafðist þess meðal annars að viðvörunarmiðar yrðu settir á plötuumslög. Tónlistariðnaðurinn brást hinn versti við og snerist til varnar með nokkra fræga listamenn í fylkingarbrjósti. Frank Zappa, fyrrverandi fyrirliði The Mothers of Invention, sem lést 1993, hafði þessar afskiptasömu mæður að háði og spotti og kallaði þær eiginkonur Stóra bróður. Zappa og fleiri báru vitni í yfirheyrslum þingsins, fordæmdu hvers kyns merkimiða og fullyrtu að slíkt kerfi væri ekkert annað en ritskoðun. „Rétt eins og að eyða flösu með afhausun,“ eins og Zappa orðaði svo pent.

Harmsöngur og nýjungar

Konurnar höfðu þó sitt fram og viðvörunarmiðar voru settir á plötuumslög sem álitin voru særa siðferðiskennd fólks, ekki ósvipað og enn tíðkast í auglýsingum um bíómyndir. Með árunum hafa varnaðarorðin breyst, núna hljóða þau yfirleitt á þessa leið: „Ráðgefandi fyrir foreldra: Djarft efni“, og gildir einu þótt hljómplötuiðnaðurinn hafi farið í gegnum dramatískar breytingar; frá vinyl og geisladiskum til streymis á netinu. Varnaðarorðin standa.

Allt frá tímum Forn-Grikkja hafa menn fjargviðrast yfir poppmenningu og sagt hana eyðandi afl. Plató var lítt hrifinn af leikritaskáldum á borð við Sófókles eða leikritum byggðum á ödipusar-komplexum. Harmsöngur um hvernig þjóðfélagið geystist beinustu leið til tortímingar hafa fylgt nánast hverri nýjung, allt frá útvarpi til sjónvarps, frá djassi til rapps, frá mjaðmahnykkjum til eggjandi skaks Miley Cyrus.

Gauksklukkan

Hvað ofbeldið varðar, hvar væri menningin án þess?, spyr The New York Times og bendir á að vildu lesendur sniðganga frásagnir af morðum kæmust þeir ekki í gegnum þriðja kafla fyrstu Mósesbókar Gamla testamentsins áður en sá fyrsti liggur í valnum. Aukinheldur verði ekki þverfótað fyrir líkum í harmleikjum Shakespeares og Grimms-ævintýrin séu grimmileg. Hrottafengin atriði séu í sextíu af eitt hundrað kvikmyndum sem Bandaríska kvikmyndastofnunin hafi valið bestu bíómyndir allra tíma og flest feikilega blóðug.

Hin sígilda kvikmynd Þriðji maðurinn er ekki talin meðal þeirra eitthundrað bestu, en í henni mælir ein sögupersónan þessa speki: „Þrjátíu ára valdatíð Borgia-ættarinnar á Ítalíu einkenndist af ófriði, hryllingi, morðum og blóðsúthellingum, en samt komu Michelangelo, Leonardo da Vinci og endurreisnin fram á sjónarsviðið. Í Sviss var lýðræði og friður í fimm aldir. Og hvað afrekuðu þeir? Gauksklukkuna.“

Forboðnir ávextir bragðast best

Varnarorð á þar til gerðum merkimiðum hafa trúlega ekki hindrað marga listamenn í að fjalla um kynlíf og ofbeldi. Hrakspá Zappa um kúgun ríkisstjórnarinnar að þessu leytinu hefur ekki ræst. Leiða má getum að því að deilurnar hafi á stundum haft þveröfug áhrif. Forboðnir ávextir bragðast best og sum ungmenni nánast lifa fyrir að koma fullorðnum úr jafnvægi.

Viðvörunarmiðarnir virðast ekki vera á undanhaldi. Samkvæmt Retro Report hefur þeim nýjustu verið komið upp í háskólum til að vara nemendur við námsefni sem kann að koma þeim í uppnám og valda áfalli eftir á. Þ. á m. eru The Great Gatsby (kvenhatur), Kaupmaðurinn í Feneyjum (gyðingahatur), og frú Dalloway (sjálfsmorð).

Skynsamleg leið til að vernda viðkvæma nemendur eða misráðin meðhöndlun líkt og nemendur væru smábörn? Væri þeim betur borgið að þurfa sjálfir að glíma við blákaldan raunveruleikann? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.

Yrðu viðbrögð fólks önnur ef höfundur sögunnar héti Sófókles og …
Yrðu viðbrögð fólks önnur ef höfundur sögunnar héti Sófókles og söguhetjan væri óheillakóngur að nafni Ödipus? Wikipedia
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert