Þingforseti þurfi aukinn meirihluta

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp þess efnis að þingmaður þurfi 2/3 hluta atkvæða til þess að ná kjöri sem forseti Alþingis. Markmiðið er sagt að bæta störf þingsins og efla þingræðið. Fyrsti flutningsmaður er Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.

„Mikilvægt er að tryggt sé að forseti Alþingis starfi ávallt með hagsmuni þingheims alls að leiðarljósi. Til þess að forseti geti beitt áhrifum sínum sem best í þágu þingsins alls, oft í erfiðum kringumstæðum og undir miklum þrýstingi, er lykilatriði að hann njóti víðtæks stuðnings bæði frá meirihluta og minnihluta á þingi. Forseti Alþingis á ekki að vera erindreki ríkisstjórnar eða taka við skipunum frá framkvæmdarvaldinu í störfum sínum,“ segir í greinargerð.

Þeirrar tilhneigingar hafi gætt engu að síður að forseti Alþingis sé erindreki framkvæmdavaldsins enda starfi hann í raun samkvæmt gildandi skipulagi í raun í umboði meirihlutans. „Til þess að koma í veg fyrir þessa tilhneigingu þarf að styrkja stöðu embættisins og gefa forseta ríkara umboð. Þetta er hægt að gera með því að koma á því fyrirkomulagi að þingmaður þurfi tvo þriðju hluta greiddra atkvæða til þess að hljóta kjör sem forseti Alþingis.“

Með slíkri breytingu sé líklegt að forseti njóti meira sjálfstæðis í ákvörðunum sínum „og verði betur í stakk búinn til að skikka bæði minni hluta og meiri hluta til vandaðri vinnubragða, meiri skilvirkni og meira samráðs. Sterkari staða forseta Alþingis væri þannig líkleg til þess að bæta verulega störf Alþingis.“

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert