Enginn flugriti í minni vélum

Fjölmennt lið kom á vettvang við Krýsuvíkurveg þegar tilkynnt var …
Fjölmennt lið kom á vettvang við Krýsuvíkurveg þegar tilkynnt var um hvarf flugvélarinnar. mbl.is/Þórður

Enn liggur ekkert fyrir um tildrög flugslyssins sunnan Hafnarfjarðar þar sem tveir flugkennarar létust eftir að Tecnam-kennsluvél hrapaði í hrauni skammt frá Krísuvíkurvegi. Búast má við því að rannsóknin taki langan tíma enda er hún bæði vandasöm og flókin.

„Við erum komin með flakið í skýli og byrjuð á svokallaðari frumrannsókn sem er öflun gagna o.s.frv,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa en hann kveðst að öðru leyti lítið geta tjáð sig um rannsóknina. „[Rannsóknin] tekur á bilininu eitt til þrjú ár. Það eina sem ég get sagt þér er að það er mikið af rannsóknum í gangi.“

Flugslys við Hafnarfjörð
Flugslys við Hafnarfjörð

Þeir sem fylgst hafa með fréttum af stærri flugslysum erlendis þekkja vel til mikilvægis þess að finna flugritann eða svarta kassann eins og hann er jafnan kallaður. Á Vísindavefnum er flugritum lýst sem nokkurs konar upptökutækjum sem skrái gögn fyrir flugtak og á meðan á flugi stendur, þar til vélin lendir eða hrapar. Hylkin um flugritana eru úr þykku stáli sem er ætlað að verja þá gegn höggum og miklum hita og eru þeir búnir senditækjum sem gefa frá sér merki svo hægt sé að finna þá eftir að slys hefur orðið. Slíkan flugrita var hinsvegar ekki að finna í vélinni sem fórst í Hafnarfirði.

„Það er ekki svartur kassi í þessum litlu vélum. Samkvæmt reglugerðum er ekki farið fram á það,“ segir Ragnar.

„Það myndi klárlega einfalda rannsóknina að því leyti að þá hefðum við svo miklar upplýsingar um hvernig flugvélin hegðaði sér. Hinsvegar er þetta box sem tengist við tækin og það er svo mikið minni sjálfvirkni í svona litlum flugvélum, þar af leiðandi er erfiðara að tengja þetta. Svo er alltaf spurning um kostnað.“

Texti fenginn af rnsa.is.
Texti fenginn af rnsa.is. mbl.is/KG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert