Ræða hryðjuverkaógnina

Ólöf Nordal innanríkisráðherra
Ólöf Nordal innanríkisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundur hófst í morgun í Brussel þar sem innanríkisráðherrar aðildarríkja Schengen-samstarfsins funda meðal annars um hryðjuverkaógnina og flóttamannavandann í Evrópu. Ólöf Nordal innanríkisráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd.

Fundurinn mun standa fram eftir degi og má búast við heitum umræðum um stöðu mála í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París, höfuðborg Frakklands, fyrir viku. Vaxandi áhyggjur hafa komið fram af framtíð Schengen-svæðisins og hafa margir forystumenn í Evrópu lýst því yfir að hætta sé jafnvel á því að samstarfið líði undir lok. Enn sér sömuleiðis ekki fyrir endann á flóttamannavandanum innan Evrópusambandsins og er enn alls óljóst með hvaða hætti tekið verði á honum.

Samþykkt var á síðasta fundi innanríkisráðherranna að ríki sambandsins skiptu með sér þeim flóttamönnum sem komnir væru inn fyrir ytri mörk Schengen-svæðisins en illa hefur gengið að hrinda þeirri samþykkt í framkvæmd. Meðal annars vegna andstöðu nokkurra ríkja Evrópusambandsins. Hryðjuverkin í París hafa ennfremur skapað auknar efasemdir um þau áform meðal ráðamanna í Evrópuríkjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert