Aukin verkefni vegna ferðamanna og við landamæraeftirlit

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra. Photo: Árni Sæberg

Ekki hefur verið ákveðið hvað þær 400 milljónir, sem lagt er til að fari til löggæslu í 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins, verði nýttar í. Verði fjárveitingin samþykkt mun innanríkisráðuneytið fara í vinnu við að skoða hvar mikilvægast er að koma fé í verkefni. Þetta segir Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, í samtali við mbl.is.

Ferðamannastraumur og landamæraeftirlit

Aðspurð hvort standi til að fjölga lögreglumönnum segir Ólöf að hún vilji ekki úttala sig um einstök atriði sem þurfi að fara í. Segir hún þó ljóst að aukin verkefni hafi komið til fyrir lögregluna með aukningu ferðamanna og þá þurfi að hafa „borð fyrir báru út af landamæraeftirliti.“

Segir hún þessa auknu fjárveitingu í málaflokkinn gríðarlega mikilvæga og vonast hún til þess að Alþingi taki vel í þessar tillögur ríkisstjórnarinnar.

Aðspurð hvort að ódæðisverkin í Frakklandi hafi aukið nauðsyn þess að auka fjárveitingu í landamæraeftirlit segir Ólöf að Íslendingar þurfi að horfa framan í það að verkefni vegna þessara mála aukist.

Samgöngur annar stór liður sem er í skoðun

Af öðrum stærri málaflokkum þar sem breytinga gæti verið að bíða varðandi fjárveitingar undir innanríkisráðuneytinu segir Ólöf að þar sé kannski helst að horfa til innviða landsins, svo sem samgangna. Segir hún að vonandi komist niðurstaða í það fljótlega en að hún telji þó ekki rétt að tjá sig um það að svo stöddu.

Frétt mbl.is: Forgangsraðað í grunnstoðir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert