56 milljónir vegna náttúruhamfara

Skaftá Skaftárhlaup 2015.
Skaftá Skaftárhlaup 2015. mbl.is/Rax

Lagt er til af meirihluta fjárlaganefndar Alþingis að ríkisstjórn Íslands verji alls 56 milljónum króna til að bæta þremur sveitarfélögum, þ.e. Ísafjarðarbæ, Skaftárhreppi og Fjallabygg, tjón eftir náttúruhamfarir.

Kemur þetta fram í nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015.

Í áliti fjárlaganefndar um frumvarpið kemur fram að alls sé gert ráð fyrir 56 milljóna króna fjárveitingu til þriggja sveitarfélaga. Lagt er til að Ísafjarðarbær fái 13 milljónir vegna vatnsflóða sem áttu sér stað í febrúar síðastliðnum, en margvíslegt tjón er enn óbætt, t.d. á gervigrasvelli bæjarins, fráveitukerfi, safnahúsi og sundlauginni á Suðureyri.

Gerir nefndin einnig tillögu um 13 milljóna króna fjárveitingu til að mæta ófyrirséðum útgjöldum sveitarfélagsins Fjallabyggðar í kjölfar úrhellisrigninga og flóða í ágúst.

Þá er loks gerð tillaga um að Skaftárhreppur fái 30 milljónir til að mæta kostnaði sveitarfélagsins af viðgerðum á óskráðum vegum, varnargörðum og girðingum sem eyðilögðust í Skaftárhlaupi í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert