Hvassviðri og dimm hríð

Það verður alls ekkert veður fyrir spássitúra í dag. Myndin …
Það verður alls ekkert veður fyrir spássitúra í dag. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farið er að snjóa suðvestanlands og jafnframt hvessir með skafrenningi. Á höfuðborgarsvæðinu þó ekki að marki fyrr en eftir kl. 9. Þetta kemur fram í athugasemdum frá veðurfræðingi í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir að spáð sé dimmri hríð undir hádegi og 18-23 m/s en fljótlega upp úr því blotni á láglendi og ætla megi að það lægi um kl. 14. Skilin fara ákveðið norðaustur yfir landið. Vestanlands og á Vestfjörðum verður veður í hámarki um hádegi og um miðjan dag vestantil á Norðurlandi. Suðaustanlands fer hins vegar fljótt í slyddu og bleytu, segir í tilkynningunni.

Færð og aðstæður

Það er hálka eða snjóþekja á flestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi, m.a. er hálka á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesbraut. Óveður er undir Eyjafjöllum.

Á Vesturlandi er hálka víðast hvar og sumstaðar éljagangur. Þungfært og skafrenningur er á Fróðárheiði.

Talsvert hefur snjóað á sunnanverðum Vestfjörðum og þungfært bæði á Kleifaheiði og Hálfdán en þæfingsfærð og skafrenningur á Mikladal.  Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar. Enn vantar upplýsingar um færð á nokkrum heiðum á Vestfjörum. Snjóþekja er á Bjarnarfjarðarhálsi og þaðan norður í Árneshrepp.

Enn vantar upplýsingar um flestar leiðir á Norður- og Austurlandi en þó er hálka eða snjóþekja allvíða. Þæfingsfærð er á Öxi og Breiðdalsheiði en hálkublettir og éljagangur eru með suðausturströndinni.

Umferðartafir í Strákagöngum

Vegna vinnu við endurbætur á rafkerfi í Strákagöngum má búast við umferðartöfum
þar á virkum dögum frá klukkan 8:00-18:00 fram til 22. desember.

Vinna á Reykjanesbraut

Opnað hefur verið fyrir umferð um nýtt hringtorg á Reykjanesbraut við Fitjar. Vegna frágangsvinnu er umferðarhraði takmarkaður við 50 km/klst á vinnusvæðinu.

Vinna við undirgöng í Mosfellsbæ

Vegna framkvæmda við undirgöng undir Vesturlandsveg á móts við Aðaltún í Mosfellsbæ, er hraði þar tekinn niður í 50 km/klst.  

Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á óþægindum sem vinna við vegsvæði veldur og eru hvattir til að fylgja þeim merkingum og leiðbeiningum sem uppi eru hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert