Vill ekki ganga um með betlistaf

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

„Maður myndi nú ekki vilja þurfa ganga um með betlistaf í hendi á hverju hausti fyrir fé í rekstur,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í Sprengisandi í morgun. 

Hann sagði að fjármögnunarmódel sem tekur mið af auknum verkefnum ætti að vera við lýði.

Meirihluti fjárlaganefndar hefur afgreitt fjárlagafrumvarp næsta árs úr nefnd og samkvæmt því verður ekki lagt til aukið fé til reksturs Landspítalans á næsta ári. Stjórnendur hafa þó talið milljarða vanta í reksturinn.

Páll sagði ljóst að aukið fé vantaði í reksturinn eftir langtímafjársvelti. Þá benti hann á almenna fólksfjölgun ásamt álaginu sem fylgir mikilli fjölgun eldri borgara í Reykjavík vegna breyttrar aldurssamsetningar.

Aðspurður hvort hann ætti ekki að ganga harðar fram sagðist Páll telja sig hafa talað nokkuð skýrt þótt hann ætli ekki að fara ganga um með öskrum.

Líta á þetta eins og samgönguslys

Rætt var um afleiðingar fjársveltis á spítalanum og farið var yfir mál Ástu Krist­ínar Andrés­dótt­ur, hjúkr­un­ar­fræðing­sins sem ákærð hefur verið um mann­dráp af gá­leysi eft­ir að sjúk­ling­ur í henn­ar um­sjón lést á gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans síðla árs 2012.

Dómurinn fellur væntanlega í næstu viku og Páll sagði alvarlegt að svo væri komið. „Auðvitað ætti að líta á þessa hluti á sama hátt og samgönguslys. Ef lögregla er búin að fullvissa sig um að ekki hafi verið um ásetning að ræða, þegar alvarlegt atvik verður, að þá fari þetta bara í þann farveg að skoða hvað brást í kerfinu og hvað er hægt að læra af því án þess að menn þurfi að vera að hræddir um að það sé verið að deila um sekt og sýknu.“

Aðspurður hvort ásættanlegt væri að örþreyttir starfsmenn væru á vakt benti Páll á að atvikið hefði gerst árið 2012 í lok tímabils þar sem gengið hefði verið hart að spítalanum. „En það er nú þannig almennt á spítalanum að þegar líf er í húfi, og um það er að velja að biðja örþreyttan starfsmann að taka aukavakt, eða að láta sjúklinginn óvaktaðan, er augljóst að maður verður að taka skárri kostinn.“

Þarf miklu meira en plástra

Páll ræddi einnig um læknasamningana og benti á að spítalinn þyrfti að greiða laun samkvæmt nýjum kjarasamningum og ætti að fá samningana bætta. Hann sagði launabætur ekki vera í samræmi við raunverulegan kostnað þar sem miklar breytingar hafi verið gerðar á vinnufyrirkomulagi lækna. Skekkjan sé því orðin meiri. „Þetta er einn af þeim hlutum sem valda mér áhyggjum fyrir rekstur næsta árs.“

Páll sagði annað áhyggjuefni vera viðhaldið á húsnæði spítalans og sagði ljóst að meira fé þyrfti til þess. 

Hann sagði langtímaverkefnið vera að byggja upp góðan spítala með betri tækjum og góðu húsnæði ásamt því að byggja upp öryggismenningu og almennilega mönnun. „Það þarf miklu meira en plástra. Það þarf að verða allveruleg breyting á fjármögnun og miklu meira fé þarf að renna til heilbrigðisþjónustu og þar á meðal til Landspítala.“

Meirihluti fjárlaganefndar leggur ekki til aukið fé til reksturs Landspítala.
Meirihluti fjárlaganefndar leggur ekki til aukið fé til reksturs Landspítala. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert