Björgunarsveitir enn að störfum

Björgunarsveitir hafa verið að störfum um allt land í gær …
Björgunarsveitir hafa verið að störfum um allt land í gær og nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir eru enn að störfum á sunnaverðum Vestfjörðum og Norðurlandi en í Skagafirði er verið að reyna að bjarga þaki af bóndabæ sem er að fjúka. Alls eru útköllin orðin 350 til 360 talsins og talsvert fjárhagslegt tjón.

Jónas Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Slysvarnafélagsins Landsbjargar, segir að um sjö hundruð björgunarsveitarmenn hafi tekið þátt í aðgerðum í gær og í nótt en útlit er fyrir að björgunarsveitarmenn verði að störfum til hádegis fyrir norðan og á Vestfjörðum en þar er bálhvasst.

Strætóskýlið við Háaleitisbraut
Strætóskýlið við Háaleitisbraut mbl.is/Þórður Arnar

Á höfuðborgarsvæðinu fóru síðustu fimmtíu björgunarsveitarmennirnir til síns heima um sjöleytið í morgun.

Ljóst er að fjárhagslegt tjón er talsvert en heil þök fuku á einhverjum stöðum, gámur með búslóð tók flugið og bátar sukku. Við Háaleitisbraut splundraðist strætóskýli og í Vestmannaeyjum tók þak af íbúðarhúsi við Smáragötu og lenti í heilu lagi á lóð rétt hjá, svo fátt eitt sé nefnt af útköllum björgunarsveitarfólks.

Þakklæðning sem fauk af húsi við Haukadalsbraut
Þakklæðning sem fauk af húsi við Haukadalsbraut mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Jónasar urðu engin alvarleg slys á fólki en það má þakka því að fólk fór að tilmælum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um að halda sig heima og vera ekki á ferli að óþörfu. Lokanir voru virtar um allt land og segir Jónas að ferðaþjónustan hafi staðið sig með miklum ágætum við að upplýsa ferðafólk um hvað væri í vændum. Því hafi ekki þurft að bjarga ferðafólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert