Öryggisvörður Landsbankans bjargaði Drakúla

Viðar og hundurinn Drakúla sem Stefán bjargaði svo fimlega.
Viðar og hundurinn Drakúla sem Stefán bjargaði svo fimlega. Ljósmynd/ Facebook síða Landsbankans.

Hjónin Viðar Eggertsson og Sveinn Kjartansson eiga árvökrum öryggisverði í Landsbankanum mikið að launa en sá hljóp uppi ræningja sem tekið hafði hund þeirra, Drakúla, ófrjálsri hendi.

Landsbankinn greinir frá atvikinu á Facebook síðu sinni þar sem tekið er viðtal við Viðar og öryggisvörðinn, Stefán Elinbergsson, vegna málsins.

„Mér hefði aldrei dottið í hug að einhver myndi stela hundinum mínum. Þú getur rétt ímyndað þér hvað við vorum þakklátir þegar okkur var tjáð að öryggisverðinum hefði tekist að bjarga Drakúla. Landsbankinn fær mikið hrós fyrir þetta," segir Viðar. „Ég fór fram á að öryggisvörðurinn yrði sæmdur titlinum starfsmaður mánaðarins fyrir að bregðast svona hratt og vel við.“

Þeir Viðar og Sveinn áttu erindi í útibú Landsbankans við Austurstræti og skildu Drakúla litla eftir bundinn úti, venju samkvæmt, enda er ekki leyfilegt að fara með hunda inn í bankann.

Stefán öryggisvörður Securitas í bankanum, sá í gegnum öryggismyndavél utan við bankann að þar væri maður að klappa hundinum.

 „Þegar hann byrjaði svo að losa hundinn áttaði ég mig strax á því hvað væri að gerast og hljóp af stað," segir Stefán. Hann náði manninum á Lækjartorgi og endurheimti hundinn.

Stefán Elinsbergsson, öryggisvörður og Hrafnhildur Ýr Kristjánsdóttir, staðgengill útibússtjóra í …
Stefán Elinsbergsson, öryggisvörður og Hrafnhildur Ýr Kristjánsdóttir, staðgengill útibússtjóra í Austurstræti. Ljómynd/ Landsbankinn

„Drakúla er eins og barnið okkar“

Í Facebook færslu bankans segir að staðgengill útibússtjóra, Hrafnhildur Ýr Kristjánsdóttir, hafi ekki vitað hvaðan á sig stóð veðrið þegar Stefán fór í loftköstum yfir gólfið. Þegar hann kom aftur með Drakúla hafi hún farið rakleiðis með hundinn til eigenda sinna sem sátu hjá þjónustufulltrúa, þótt strangt til tekið sé bannað að koma með hunda inn í útibúið.

 „Drakúla er eins og barnið okkar og treystir okkur í einu og öllu. Hann er hvers manns hugljúfi og treystir öllum," segir Viðar. Hann hrósar starfsmönnum bankans í hástert fyrir skjót viðbrögð en greinir þó frá því í að hann og eiginmaður hans hafi verið stöðvaðir af öðrum öryggisverði á leið út og þeim bannað að vera með Drakúla inni.

Drakúla var ekki lengi í haldi hundræningjans, þökk sé Stefáni.
Drakúla var ekki lengi í haldi hundræningjans, þökk sé Stefáni. Ljósmynd/ Viðar Eggertsson

Viðar veltir því upp af hverju hundar séu bannaðir í bönkum og telur það hugsanlega stafa af því hversu stutt er síðan hundahald var leyft í Reykjavík.

„Víða í Evrópu fer fólk með hundana sína í banka án þess að það þyki neitt tiltökumál. Ég skil ekki hvers vegna reglurnar þurfa að vera svona strangar hér. Er svarið ef til vill „af því bara"?" spyr Viðar.

Kveðst Viðar ekki ætla að taka Drakúla með sér aftur í bankann svo hann þurfi ekki að binda hann aftur fyrir utan. Áður hafi hann notað tækifærið til að viðra hundinn en framvegis verði Drakúla skilinn eftir heima. „Tja, ekki nema Stefán öryggisvörður verði á vakt," segir Viðar og hlær.

Færslu Landsbankans má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert