„Hef andstyggð á þessum málflutningi“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður velferðarnefndar Alþingis.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Ómar

„Ég hef andstyggð á málflutningi sem þessum,“ sagði formaður velferðarnefndar Alþingis, spurð út í ummæli sem fjármálaráðherra lét falla í útvarpsþætti í gær. Þingmaður Pírata furðar sig á því að ráðherra telji að fólk geti læknast af andlegum veikindum sisvona og hafi því ekkert erindi á örorkubótum.

Þetta kom fram við aðra umræðu um fjárlögin. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Sigríði, sem er jafnframt þingmaður Samfylkingarinnar, út í ummæli sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét falla í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær.

„Þar sem ráðherrann beinlínis etur saman þá sem eiga við líkamlega og andlega örorku. Hæstvirtur fjármálaráðherra lætur það út úr sér, að maður geti bara sisvona læknast af andlegum veikindum og hafi því ekkert erindi inni á örorkubótum,“ sagði Birgitta og furðaði sig á því hvaðan Bjarni hafi sínar heimildir um sjúkdóma.

Birgitta benti á, að hún þekkti vel til geðsjúkdóma. „Faðir minn átti við geðræn vandamál að stríða. Blóðfaðir minn var með schizophreníu [geðklofasjúkdóm] og það er ekki sjúkdómur sem þú getur svona sísvona læknað þig af. Ekkert frekar en af mænuskaða. Og mér finnst hreinlega viðurstyggilegt þegar svona viðhorf koma fram,“ sagði Birgitta og spurði hvað Sigríði þætti um slíka orðræðu.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Mér finnst það beinlínis andstyggilegt þegar látið er í veðri vaka að fólk sem hefur metna örorku og er með örorkulífeyri, að það er látið í veðri vaka með að það sé af einhverskonar leti að það fólk sé ekki á vinnumarkaði,“ sagði Sigríður.

„Við sem erum svo heppin að hafa fullt starfsþrek ættum kannski að setja okkur í þau spor að það kunni að koma að því einhvern daginn að okkur þverri starfsþrek af einhverjum ástæðum. Hvort sem það er af slysförum, líkamlegum eða andlegum veikindum,“ sagði hún ennfremur.

Hún bætti við, að helstu orsakir örorku í dag sé geðrænn vandi og stoðkerfissjúkdómar.

„Þegar við horfum á hinn geðræna vanda þá er tvennt sem kemur til. Annars vegar búum við í samfélagi sem er mjög flókið og þar er mikið áreiti. Þannig að ef að fólk, vegna einhverra áfalla eða veikleika, lendir í geðrænum vanda, þá er samfélagið mjög erfitt hvað það varðar. Það eru flóknar kröfur á okkur stöðugt og það er erfitt að takast á við það. Og grundvallarþátturinn er sá, að ef þú átt við geðrænan vanda á Íslandi að stríða, þá er ekkert mjög mikið af úrræðum eða frambúðarþjónustu. Þú færð bráðaþjónustu á geðdeild og það er sannarlega til mikið af góðum sérfræðingum og verið að gera góða hluti. En það er ófullnægjandi, ekki síst er það ófullnægjandi fyrir börn. Þannig að við erum ekki sem samfélag að vinna gegn því að fólk tapi endanlega starfsorku vegna geðrænna sjúkdóma. Svo ég hef andstyggð á málflutningi sem þessum,“ sagði Sigríður.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert