Bjó til nýtt starf og auglýsti ekki

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Ómar

Biskup Íslands ákvað að búa til nýja stöðu fyrir sr. Skírni Garðarsson sem áður var prestur í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ.

Skipaði hún hann héraðsprest og færði í annað prófastdæmi í von um að leysa vanda sem kominn var upp í kirkjunni vegna samskiptaörðugleika Skírnis og sr. Ragnheiðar Jónsdóttur, sóknarprests kirkjunnar. Staðan sem búin var til var ekki auglýst. Annar prestur verður skipaður í stað Skírnis.

Prestarnir tveir voru sendir í leyfi í byrjun nóvember á síðasta ári og áttu þau bæði að koma til starfa í byrjun þessa árs. Skírnir sagði í samtali við mbl.is um miðjan nóvember að hann hefði séð sig knúinn til að flytja skrifstofu sína heim til sín og starfa þar að hluta vegna ágreinings á vinnustaðnum.

Frétt mbl.is: Kvartaði vegna eineltis í kirkjunni

Þá sagði hann einnig að Vinnu­eft­ir­litið hefði til skoðunar kvört­un Skírn­is vegna meints einelt­is Ragn­heiðar og Hreiðars Arn­ar Zoega Stef­áns­son­ar, fram­kvæmda­stjóra kirkj­unn­ar, í sinn garð.

Átti þrjú ár eftir í Lágafellskirkju

Skírnir var skipaður prestur í Mosfellsprestakall  í lok ársins 2008. Embættið var veitt frá 1. janúar 2009 en skipunartími presta er fimm ár. Hélt hann áfram árið 2014 þegar skipunartíminn rann út og átti því þrjú ár eftir starfi sínu í Lágafellskirkju þegar hann lét af störfum þar í lok síðasta árs.

Tilkynnt var um breytinguna á vef þjóðkirkjunnar um miðjan desember en þar var greint frá því að Skírnir yrði héraðsprestur frá og með áramótum.

„Það gerir hann að eigin ósk þar sem þjóðkirkjan kallar hann til nýrra og aukinna verkefna. Þjónustuskyldur hans færast úr Mosfellsprestakalli yfir í Reykjavíkurprófastsdæmin eystra og vestra, Kjalarnesprófastsdæmi og Suðurprófastsdæmi. Verkahringur séra Skírnis verður áhugaverður og fjölbreyttur í ofangreindum prófastsdæmum,“

Séra Skírnir hefur fjölþætta prestsreynslu hérlendis og erlendis frá. Hann starfaði sem prestur í Noregi til fjölda ára. Hin seinni ár hefur hann sinnt prestsþjónustu hérlendis. Öll þessi reynsla mun nýtast honum á nýjum starfsvettvangi,“ sagði í tilkynningu á vef kirkjunnar.

Frétt mbl.is: Prestar í leyfi vegna óánægju

Frétt mbl.is: Skírnir verður héraðsprestur

Ákvað að auglýsa stöðuna ekki

Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu var ákveðið að auglýsa stöðuna ekki á grundvelli 36. greinar laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Á vef þjóðkirkjunnar má sjá að þegar auglýst er eftir prestum eða sóknarprestum sækja að jafnaði hátt í tíu manns um embættið og því er ljóst að næg eftirspurn hefði verið eftir starfinu sem búið var til í desember

36. gr. Stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, getur flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Enn fremur getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi, enda óski það stjórnvald eftir því.

Flytjist maður í annað embætti skv. 1. mgr., sem er lægra launað en fyrra embættið, skal greiða honum launamismuninn þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í fyrra embættinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka