Af Laugarvegi og Laugavegi

Ætli þessi hafi í rauninni ætlað á Siglufjörð?
Ætli þessi hafi í rauninni ætlað á Siglufjörð? mbl.is/Eggert

Margir Íslendingar hafa eflaust hlegið dátt að óförum ferðamannsins sem keyrði í fimm tíma í gær frá Keflavíkurflugvelli til Siglufjarðar, þar sem hann leitaði að Hótel Fróni á Laugarvegi bæjarins, en svo illa vildi til að Hótel Frón er staðsett við Laugaveg í Reykjavík.

Þó svo í fyrstu virðist sem maðurinn hafi í blindni treyst GPS-tæki sínu, sem vísaði honum statt og stöðugt sem leið lá á Siglufjörð, bendir margt til þess að ekki sé við hann einan að sakast. 

Bendir Nútíminn á að fjöldi bókunarsíða staðsetur Hótel Frón ranglega við Laugarveg í lýsingu hótelsins. Engan Laugarveg er hins vegar að finna í Reykjavík, heldur á Siglufirði, líkt og ferðamaðurinn komst að eftir ferð sína í gær.

Sextíu þúsund niðurstöður

Laugavegurinn dregur nafn sitt af gömlu þvottalaugunum í Laugardal en þangað báru konur þvott til þess að þvo allt til ársins 1930. Þar sem laugarnar voru fleiri en ein er r-inu ofaukið ef rætt er um Laugarveg.

Þegar nánar er athugað má sjá að þessi meinlega villa skýtur víða upp kollinum. Sé orðið „Laugarvegur“ slegið inn í leitarvél Google skilar hún rúmlega sextíu þúsund niðurstöðum. Tæpast eiga margar þeirra við um Laugarveg á Siglufirði, sem þó er fagur á að líta

Mörg fyrirtæki virðast falla í þá gryfju að staðsetja sig við Laugarveg á vefsíðum sínum. Þannig stendur Sushibarinn við Laugarveg 2, Hitt Húsið við Laugarveg 10 og viskíbarinn Dillon við Laugarveg 30.

Sjá má fjölda tilvika þar sem Hótel Frón er sagt …
Sjá má fjölda tilvika þar sem Hótel Frón er sagt vera á Laugarvegi. Skjáskot/Nútíminn

Fjölmiðlar einnig sekir

Þá má nefna Sjón gleraugnaverslun en á vefsíðu hennar er hún ýmist sögð vera við Laugaveg eða Laugarveg 62. Hárgreiðslustofan Solid segist þá vera við Laugarveg 176 og eftir væna klippingu þar er kannski tilvalið að skella sér á Kaffibrennsluna við Laugarveg 21.

Fjölmiðlar gerast þó einnig sekir um þessa villu. Á vefsíðu Grapevine má sjá frétt um lokanir á umræddum Laugarvegi og sjálft hefur mbl.is fjallað um húsnæði Ríkisskattstjóra við Laugarveg. Svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Mesta furðan er kannski að fleiri leggi ekki leið sína á hinn siglfirska Laugarveg.

Frétt mbl.is: Þar munaði um r-ið!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert