Í góðu yfirlæti á Siglufirði

Santillan á Sigló Hótel í hádeginu.
Santillan á Sigló Hótel í hádeginu. Ljósmynd/ Sigurður Ægisson

Noel Santillan er 28 ára gamall frá Perth Amboy í New Jersey í Bandaríkjunum og í dag er hann frægasti túristi Íslands. Santillan vann sér það til frægðar að keyra alla leið til Siglufjarðar í leit að Laugaveginum en fann þar fyrir Laugarveg.

Frétt mbl.is: Þar munaði um r-ið!

„Ég hafði ætlað mér að vera í Reykjavík eina nótt og aka svo um Ísland, á milli þorpa og bæja, en halda mig þó mestmegnis á Suðurlandi, einfaldlega vegna þess að ég taldi það betra veðurfarslega, en það hafði eiginlega aldrei hvarflað að mér að keyra yfir hálft landið fyrsta daginn, allra síst eftir fimm klukkustunda flug frá New York,“ segir Santillan í viðtali við tíðindamann Siglfirðings.is

Samkvæmt miðlinum er Santillan þó alsæll með að ferðin hafi æxlast með þessum hætti enda hafi það sem fyrir augu hafi borið hafi verið frábært alla leiðina norður. Þá segir að Siglfirðingar hafi tekið honum opnum örmum og greitt götu hans í hvívetna.

Santilla athugaði GPS-tækið í tvígang á leiðinni til Siglufjarðar en alltaf gaf það sömu niðurstöðuna. Við Laugarveg 18 sagði tækið hann kominn á áfangastað og þar knúði hann dyra. Hótel Frón í Reykjavík, þar sem hann átti pantað herbergi, er þó við Laugaveg 22A en eins og mbl.is greindi frá í dag var einu r-i ofaukið í heimilisfanginu á bókunarsíðum hótelsins.

Frétt mbl.is: Af Laugarvegi og Laugavegi

„Ég fer suður á morgun, var að kynnast öðrum Bandaríkjamanni hér á Siglufirði, Jeremy að nafni, og við ætlum að vera í samfloti. Á laugardag, 6. febrúar, er svo áætluð heimferð til Bandaríkjanna.“

Viðtalið Siglfirðings í held sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert