Óð snjóinn upp að mitti

Víða hefur snjóað mikið í vikunni.
Víða hefur snjóað mikið í vikunni. mbl.is/Þórður

„Það er bara allt á kafi,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð. Hún býr á Patreksfirði en þar er enn í gildi hættustig vegna snjóflóða. Allt skólahald féll niður í sveitarfélaginu í dag vegna veðurs og ófærðar.

Ferð hennar til vinnu var heldur óhefðbundin í morgun. „Maðurinn minn ætlaði að skutla mér en það er nú bara þannig að bíllinn var á kafi. Hann fylgdi mér niður í Aðalstræti og þar hitti ég lögreglumann sem skutlaði mér. Ég óð snjóinn upp í mitti og er ég háfætt,“ segir Ásthildur.

Hafist var handa við að ryðja götur bæjarins í morgun. „Það hefur skafið í skafla þannig að sumstaðar er ekki neitt en á öðrum stöðum er mjög mikill snjór. Það er ofankoma og var í alla nótt. Það er bloti í þessu þannig að snjórinn er þungur. Þetta verður flókið,“ segir Ásthildur.

Ekki eru margir á ferli í bænum þessa stundina. „Skólarnir eru lokaðir og fólk reynir að vera heima og ekkert að vera að ana út í óvissuna. Það er mjög slæmt skyggni og ekkert færi fyrir aðra en vel útbúna bíla í bænum,“ segir Ásthildur. Hún segir ekkert tjón hafa orðið í bænum vegna veðurs. Rafmagnslaust er á Barðaströnd og farið að kólna í húsunum. Um er að ræða sveitabæi og eru sumir íbúanna með varaafl.

„Það snjóaði mjög mikið í fyrra,“ segir Ásthildur, aðspurð hvort ofankoman síðasta sólarhringinn sé meiri en íbúar hafa séð í bænum síðustu ár. „Það hefur verið mjög lítill snjór í vetur þannig að þetta er mjög mikið á einum sólarhring. Þeir sem vel þekkja til og ég ræddi við eldsnemma í morgun sögðu mér að þeir hefðu ekki séð svona mikinn snjó koma í einu fyrir árið 2000.“

Vesturbyggð er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum. Til Vesturbyggðar teljast byggðakjarnarnir Birkimelur á Barðaströnd, Bíldudalur og Patreksfjörður og sveitirnar Barðaströnd, Breiðavík, Hænuvík, Ketildalir, Látrar, Rauðisandur og Suðurfirðir. 

Frétt mbl.is: Engin snjóflóð fallið í byggð

Svona var umhorfs á svölunum hjá bæjarstjóranum í morgun.
Svona var umhorfs á svölunum hjá bæjarstjóranum í morgun. Ljósmynd/Ásthildur Sturludóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert