Skáru sig úr í bæjarfélaginu

Biðin eftir svari frá yfirvöldum hér á landi var mönnunum …
Biðin eftir svari frá yfirvöldum hér á landi var mönnunum erfið. AFP

Þegar mennirnir voru spurðir hvað þeir gerðu yfir daginn horfðu þeir undrandi á hana og svöruðu allir á sömu leið, ekkert. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa, jafnvel frá unga aldri, unnið mikið og vanist því að sjá fyrir sér. Þeir fannst erfitt að skera sig úr á göngu sinni um Reykjanesbæ, biðin eftir svari af einhverju tagi var þrúgandi og framtíðina var erfitt að setja í orð.

Iðjuþjálfinn og lýðheilsufræðingurinn Lilja Ingvarsson ræddi við sex hælisleitendur fyrri hluta ársins 2014 vegna meistaraverkefnis hennar í lýðheilsufræði. Mennirnir voru á aldrinum 23 ára til 38 ára og voru frá Afganistan, Írak og Íran í leit að hæli hér á landi. Sá sem hafði verið styst hér á landi hafði dvalið hér í hálft ár en sá sem lengst hafði verið hafði búið hér í tvö og hálft ár.

Lilja vildi með rannsókn sinni öðlast skilning á upplifun og reynslu hælisleitenda á meðan þeir bíða eftir svari við umsókn sinni um hæli hér á landi. Lagði hún áherslu á daglega iðju, tækifæri til þátttöku í iðju og áhrif á heilsu og velsæld að bíða í óvissu.

Hún er ein þeirra sem flytja munu erindi á ráðstefnunni Fræði og fjölmenning 2016: Uppbygging og þróun íslensks fjölmenningarsamfélags sem haldin verður í Háskóla Íslands á morgun. Lilja ræddi við mbl.is um rannsóknina en erindi hennar ber yfirskriftina ,,Þetta er ekkert líf" - Daglegt líf hælisleitenda, tækifæri, þátttaka, heilsa og velsæld.

Eldaði mat til að stytta sér stundir

„Ástæðan fyrir því að ég hafði áhuga á þessu sjónarhorni er að ég er iðjuþjálfi og hef starfað við það í fjölda ára. Það er þekkt að þegar fólk hefur ekki tækifæri til að taka þátt í iðju sem er mikilvægt fyrir það, hefur það neikvæð áhrif á heilsu og velsæld,“ segir Lilja.

Viðtölin fóru fram á ensku án túlks. „Það var til þess að draga úr fjarlægð á milli mín og hælisleitendanna. Skilyrðið var að þeir gætu skilið einfalda ensku og gætu tjáð sig um tilfinningar sínar og skoðanir á einföldu máli og það gekk ágætlega hjá öllum,“ útskýrir Lilja.

Lilja spurði mennina meðal annars hvað þeir gerðu yfir daginn. „Þá horfðu þeir á mig undrandi og svöruðu svo, ekkert,“ segir hún. Þegar hún fór að rýna betur í viðtölin og greina þau kom í ljós að mennirnir áttu við atvinnu.

„Hún var þeim afskaplega mikilvæg því að þetta voru allt menn sem höfðu unnið jafnvel frá mjög ungum aldri, í fjölda ára og séð um sig sjálfir. Sumir höfðu verið í öðru Evrópulandi í einhverja mánuði, jafnvel ár áður en þeir komu hingað. Fyrir þeim var það að hafa eitthvað fyrir stafni að vinna.“

Í ljós kom að það skipti mennina miklu máli að vera virkur og hafa eitthvað fyrir stafni. Þeir stunduðu meðal annars líkamsrækt, fóru út að ganga og nýttu jafnvel tímann til að elda mat sem tók langan tíma að útbúa.  „Einn sagði, stundum elda ég mat, sem tekur einn og hálfan klukkutíma,“ hefur Lilja eftir einum þeirra.

„Gefið mér bara svar“

Niðurstöður rannsóknarinnar vörpuðu einnig ljósi á búsetu mannanna og aðstæður. Þegar viðtölin voru tekin var Fit Hostel í Reykjanesbæ enn í notkun og höfðu mennirnir allir búið þar en fjórir þeirra voru fluttir til Reykjavíkur.

„Þeir töluðu allir um hvað þetta var krefjandi búseta. Bæði vegna mismunandi viðhorfs til hreinlætis, þeir bjuggu margir saman, þurftu að bíða lengi eftir að komast að til að elda og svo fannst þeim þeir ekki falla vel inn í bæjarfélagið, væri mjög áberandi að þeir væru erlendir,“ segir Lilja. Hún segir að þeir hafi haft fleiri tækifæri til að taka þátt í sjálfboðavinnu í Reykjavík og þar fannst þeim þeir ekki skera sig jafn mikið úr en þeir fóru allra ferða sinna gangandi.

„Valdleysi var líka mjög áberandi þema og það að vera ekki við stjórn í eigin lífi, hvorki varðandi tekjur og hvað yrði. Einn sagði: Ég er búinn að bíða og bíða, gefið mér bara svar, já eða nei og ég tek því eins og það kemur,“ segir Lilja. Í niðurstöðum hennar komu einnig fram upplýsingar um framtíðarsýn mannanna. „Þeir áttu mjög erfitt með að setja einhverja framtíðarsýn í orð,“ segir hún.

Síðan rannsóknin var gerð var gerður samningur við Rauða krossinn sem hefur stytt málsmeðferðartímann og Fit Hostel verið lokað. Þá hefur Rauði krossinn einnig komið á fót öflugu félagsstarfi í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og í Reykjavík og er það öflugt og ágætlega sótt að sögn Lilju. Því er ljóst að úrbætur hafa verið gerðar en þó mætti þó gera betur á ýmsum sviðum og mun hún greina nánar frá því í erindi sínu á laugardaginn.

Mönnunum fannst þeir skera sig meira úr á Suðurnesjum en …
Mönnunum fannst þeir skera sig meira úr á Suðurnesjum en í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi
Ráðstefnan Fræði og fjölmenning 2016: Uppbygging og þróun íslensks fjölmenningarsamfélags …
Ráðstefnan Fræði og fjölmenning 2016: Uppbygging og þróun íslensks fjölmenningarsamfélags verður haldin í Háskóla Íslands á laugardaginn mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert