Norðurljósauppskeran góð í ár

Ljósmyndir/Sigurbergur Árnason/Reykjavik Excursions

Sést hefur til norðurljósa í meirihluta þeirra ferða sem Kynnisferðir hafa farið það sem af er vetri. Um fimm til níu hundruð manns fara að meðaltali í hverja ferð, sem tekur um þrjá til fjóra tíma. Þetta segir Sigurbergur Árnason arkitekt og ferðastjóri norðurljósaferða hjá Kynnisferðum.

„Þrátt fyrir slæmar gæftir þá höfum við séð norðurljós í meirihluta túra, eða í um 60 til 70% ferðanna,“ segir Sigurbergur í samtali við mbl.is. Hann kveður desember og janúar vera erfiða mánuði.

Hátt í 17 rútur fullar af fólki

„En núna í síðustu fjórum túrum þá höfum við verið að sjá ljós,“ segir hann og bætir við að gríðarleg aðsókn sé í ferðirnar.

„Það er ekkert óalgengt að við séum að fara með 15, 16 eða 17 rútur fullar af fólki. Það er varla að þær fari undir tíu. Við erum því að tala um fimm til níu hundruð manns að meðaltali,“ segir Sigurbergur. Farnar eru eins margar ferðir og mögulegt þykir.

„Við erum bara ekki að komast eins oft og við vildum, vegna veðurs. Við þurfum auðvitað nokkuð skíran himin.“

Þá vilja ljósin sjálf ekki alltaf láta á sér bera, sem útskýrir að mestu hlutfall þeirra túra þar sem ekki til þeirra sést, að sögn Sigurbergs.

„Við rekum engan heim“

„Það eru yfirleitt ljósin sjálf sem eiga sök þar að máli. Þau koma ekki alltaf og stundum koma þau seinna eftir að ferðum okkar er lokið, en þeim lýkur um miðnætti og við erum þá þrjá til fjóra tíma. Stundum erum við lengur ef ljósin koma seint. Við rekum engan heim fyrr en allir eru búnir að sjá ljós, þannig virkar það hjá okkur.“

Hann segir meiri sprengikraft hafa einkennt ljósin undanfarna tvo vetur heldur en þann sem nú líður. 

„Það er eins og virknin sé aðeins að minnka. Þau eru að verða rólegri, hægari og ekki eins mikill sprengikraftur í þeim. Það er eðlilegt því nú á að vera minnkandi virkni næstu fjögur ár. Virknin á svo að ná hámarki aftur um árið 2023. Þetta er svona ellefu ára hringur.“

Þingvellir nýtast vel

Ferðast er á fjölda staða og er farið eftir veðri hvert kvöld.

„Við reynum mikið að notast við Þingvelli. Þeir eru góðir að því leyti til að þar eru bílastæði og enn fremur eru þau rudd, en þjóðgarðurinn hefur staðið sig mjög vel í ruðningi. Þegar er svona vetrarfærð þá eru ekki margir staðir þar sem hægt er að ferðast með svona marga bíla. Við reynum því að dreifa þeim, fjórum eða fimm á hvern stað, og svo er alltaf einhver sem hefur yfirsjón með þessu á hverju kvöldi. Oftast er ég í því hlutverki.“

Norðurljósaferðunum er jafnan hætt um miðjan apríl, þar sem þá er farið að gæta aukinnar dagsbirtu.

„Um miðjan mars færum við okkur svo til um einn klukkutíma, förum aðeins seinna svo að það sé nógu dimmt til að sjá ljósin. Við þurfum að haga seglum eftir vindi, það er bara þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert