Svavars-samningur hefði kostað 208 milljarða

Icesave-samningurinn sem kenndur er við Svavar Gestsson hefði kostað 208 …
Icesave-samningurinn sem kenndur er við Svavar Gestsson hefði kostað 208 milljarða m.v. uppgjör slitabús Landsbankans. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eftirstöðvar af Icesave-samningunum sem kenndir eru við Svavar Gestsson væru á þessu ári um 208 milljarðar, eða um 8,8% af áætlaðri landsframleiðslu ársins í ár. Upphæðin hefði fallið á ríkissjóð og komið til greiðslu fjórum sinnum á ári næstu 8 árin og numið um 26 milljörðum á ári ásamt vöxtum sem hefðu verið 5,55%. Þetta kemur fram í svari Hersis Sigurgeirssonar, dósents í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands á Vísindavefnum.

Samningarnir voru undirritaðir 5. júní árið 2009 og var Svavar formaður samninganefndarinnar. Með þeim hefði breska og hollenska ríkið lánað Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta um 700 milljarða króna í pundum og evrum til fimmtán ára á föstum 5,55% vöxtum.

Nota átti fjármunina til að endurgreiða hollenska seðlabankanum og breska tryggingarsjóðnum þar sem þeir höfðu greitt innistæðueigendum Landsbankans eftir fall hans.

Fyrst um sinn átti aðeins að greiða inn á lánið það sem Tryggingarsjóður fengi úr slitabúi Landsbankans, en eftirstöðvar að þeim tíma loknum átti að greiða yfir átta ára tímabil.

Í svari Vísindavefsins kemur fram að í frumvarpi laga um heimild ríkisins til að ábyrgjast lánin hafi verið áætlað að samningurinn myndi kosta ríkissjóð 415 milljarða þann 5. júní 2016, ef endurheimtur búsins yrðu 75%. Með 15% fráviki gátu eftirstöðvar lánsins verið um 309-521 milljarður.

Svavar Gestsson var formaður samninganefndarinnar.
Svavar Gestsson var formaður samninganefndarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Heimtur úr búi bankans voru aftur á móti mun meiri en áætlað hafði verið og fékkst 100% upp í forgangskröfur. Þannig hefðu eftirstöðvar samningsins numið 208 milljörðum, en það var á sínum tíma talin besta mögulega niðurstaðan.

Áður hafði Vísindavefurinn birt sambærilegt svar um kostnað ríkissjóðs af Icesave-samningunum sem kenndir eru við Lee Buchheit. Svarið þá var að áætlaðar heildargreiðslur vegna þeirra samninga hefðu numið 87 milljörðum, þar af 81 milljarði í vaxtagreiðslur. Af því hefði ríkissjóður greitt 67 milljarða en Tryggingarsjóður 20 milljarða. Þá hafði þó ekki verið klárað uppgjör við forgangskröfuhafa, en uppreiknað í dag og m.v. breytt gengi hefði vaxtakostnaðurinn aukist um einn milljarð en greiðslur Tryggingarsjóðs farið niður í 0,5 milljarða.

Báðir þessara samninga fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þeim var hafnað. Að endingu sýknaði EFTA dómstóllinn Íslendinga af kröfum breskra og hollenskra yfirvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert