„Grýla er dauð“

„Haustið 2008 varaði ég við því að viðbrögð við vandanum …
„Haustið 2008 varaði ég við því að viðbrögð við vandanum gætu reynst afdrifaríkari en vandinn sjálfur og þar reyndist ég því miður einnig sannspár,“ segir Björgólfur. mbl.is/Frikkir

„Grýla er dauð og búið að kasta rekunum. Ég vona að hún fái að hvíla óáreitt í gröf sinni,“ skrifar Björgólfur Thor Björgólfsson á heimasíðu sína þar sem umfjöllunarefnið er Icesave. Hann segir að nú sé endanlega búið að staðfesta dauða gömlu Icesave-grýlunnar“.

Hann segir að jarðarför hennar hafi næstum farið fram í kyrrþey „a.m.k. sé miðað við þær upphrópanir, formælingar og djöfulskap sem einkenndu tilveru hennar. Öll sú tilfinningasemi var byggð á innantómum hræðsluáróðri og stjórnmálamenn þess tíma ættu að skammast sín fyrir að leiða þjóðina á þær skaðlegu brautir,“ skrifar Björgólfur.

Hann bendir á að greint hafi verið frá því sl. föstudag að samið hafi verið um lokauppgjör Icesave. Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta muni greiða Bretum og Hollendingum 20 milljarða króna. Þeir peningar séu til í fórum Tryggingasjóðsins og hafi að mestu verið safnað í sjóðinn fyrir fall íslensku bankanna haustið 2008.

„Skömm þeirra er mikil“

„Stærsti áfangi í Icesave-málinu náðist í janúar 2013, þegar EFTA-dómstóllinn hafnaði öllum kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA í málinu. Sú niðurstaða kom mér ekki á óvart. Það kom mér hins vegar mjög á óvart hversu langan tíma það tók að sannfæra fólk um að eigur Landsbankans dygðu fyrir Icesave-kröfunum. Ég benti fyrst á þetta haustið 2008, í viðtali við Kompás og lagði áherslu á mikilvægi þess að haldið yrði vel utan um eigur bankans, til að tryggja sem bestar heimtur,“ skrifar Björgólfur.

„Ég leyfi mér líka að rifja upp núna, að haustið 2008 varaði ég við því að viðbrögð við vandanum gætu reynst afdrifaríkari en vandinn sjálfur og þar reyndist ég því miður einnig sannspár. Þjóðin klofnaði í stríðandi fylkingar og  ásakanir um föðurlandssvik urðu svo algengar að enginn virtist gera sér grein fyrir alvarleika þeirra lengur. Lífskjör hér áttu að færast aftur á steinöld og þjóðarinnar beið það eitt að verða undirokaðir þrælar stórþjóða. Stjórnmálamenn kyntu margir undir, í stað þess að hefja sig upp yfir öfgarnar og benda rólega og yfirvegað á færar leiðir til lausnar. Skömm þeirra er mikil.

Grýla er dauð og búið að kasta rekunum. Ég vona að hún fái að hvíla óáreitt í gröf sinni,“ segir hann ennfremur.

„Fullnaðarsigur í Icesave-málinu“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK