„Við vorum grandalaus“

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Ómar

Allar upplýsingar sem Landsbankinn fékk fyrir söluna á hlut sínum í Borgun árið 2014 komu frá stjórnendum félagsins, en þeir voru meðal þeirra sem keyptu hlutinn. Engar vísbendingar um möguleg verðmæti vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe og eignar Borgunar í Visa Europe voru þar á meðal. „Við vorum grandalaus.“ Þetta kom fram í máli Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, í Kastljósi í kvöld.

„Við fengum það sem við fengum frá Borgun,“ sagði Steinþór og bætti við að síðari atburðir sýndu að bankinn hefði ekki fengið að vita allt. Sagði hann málið allt mjög sérstakt. Helgi Seljan þáttastjórnandi spurði Steinþór hvort ekki hefði verið rétt að fá óháðan aðila til að fara yfir öll gögn um félagið en Steinþór svaraði því til að ekki hefði verið hægt að leita annað, málið væri flókið.

Steinþór sagði að við greiningu bankans á hlutnum í Borgun hefði meðal annars verið horft til væntanlegrar útrásar Borgunar. Sagði hann bankann hafa talið að viðskiptamódel Borgunar væri áhættusamt. Vísaði hann til þess að útrás Valitor hefði farið illa og þegar Landsbankinn hefði verið að selja hlut sinn hefði Borgun ætlað að byggja á sama módeli og Valitor hefði áður gert.

Helgi vísaði í þættinum í ummæli Steinþórs í kringum söluna á hlutunum í Borgun og Valitor árið 2014. Benti hann á að Landsbankanum hefði verið fullljóst um valréttinn í Valitor en ekki hugað að því hjá Borgun. Sagði Steinþór að á þeim tíma hefði Borgun verið í litlum viðskiptum með Visa. Hann sagði samt að miðað við ummæli forstjóra Borgunar mætti líta svo á að bankinn hefði orðið af um 300 milljónum miðað við hlutdeild Borgunar á Visamarkaðnum og hagnaði af yfirtöku Visa Inc á Visa Europe.

Þegar Helgi spurði Steinþór út í ummæli Bjarna Benediktssonar nýlega, sem tengdust skorti á trausti á stjórn bankans nú þegar selja ætti hlut ríkisins í bankanum, sagðist hann sammála Bjarna. Útskýra þyrfti málið nánar. Gekk Helgi á hann og spurði hvort einhver annar yrði ekki að taka við Steinþóri í ljósi þessa máls. Sagði Steinþór að það yrði að koma í ljós en að hann hefði ekki íhugað stöðu sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert