Bankaræningjar fangelsaðir

Ránið var framið 30. desember sl.
Ránið var framið 30. desember sl. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í fangelsi fyrir bankarán sem var framið í útibúi Landsbankans í Borgartúni í Reykjavík í lok desember. Voru mennirnir dæmdir hvor um sig í þriggja ára fangelsi. 

„Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærðu frömdu vopnað rán á óvenju grófan hátt. Í bankanum var nokkur fjöldi fólks, bæði starfsmenn og viðskiptavinir. Ráða má af myndbandsupptöku að þeir gengu óhikað og skipulega til verks og tók ránið stuttan tíma,“ segir í dómi héraðsdóms sem féll í gær.

Með hníf og eftirlíkingu af skammbyssu

Lögreglustjórninn á höfuðborgarsvæðinu ákærði þá Ólaf Inga Gunnarsson og Jóel Maron Hannesson fyrir rán þann 5. febrúar sl. Fram kom í ákæru, að þeir hefðu farið inn Landsbankann við Borgartún 33 í Reykjavík 30. desember sl. Var Ólafur klæddur svartri hettupeysu, með andlitið hulið og vopnaður eftirlíkingu af skammbyssu. Jóel var einnig í hettupeysu, með andlitið hulið og vopnaður hníf.

Þeir stukku yfir afgreiðsluborð þar sem voru fyrir fimm starfsmenn bankans og ógnaði Ólafur gjaldkera bankans með byssunni m.a. með því að halda byssunni upp við höfuð gjaldkerans meðan hann skipaði henni að opna þrjár sjóðsvélar bankans, sem Ólafur tók síðan fjármuni úr. Á meðan tók Jóel peninga sem voru á afgreiðsluborði og setti í poka sem hann hafði meðferðis og ógnaði starfsfólki og viðskiptavinum bankans með hníf sem hann hélt á lofti.

Mennirnir höfðu 558.000 íslenskar krónur, 1.080 evrur, 10.000 japönsk jen, 500 danskar krónur og 20 pund á brott með sér af vettvangi, að því er segir í ákærunni.

Gáfu sig fram og vísuðu á ránsfenginn

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að í þinghaldi 10. febrúar játuðu þeir Ólafur og Jóel sök og ekki kom fram ósk um að aðalmeðferð færi fram.

Meðal rannsóknargagna er myndbandsupptaka úr afgreiðslusal bankans sem tekin er af mönnum fremja ránið. Á henni sést hvernig þeir komu hlaupandi inn í bankann klæddir eins og í ákæru greindi.

Til undirbúnings ráninu höfðu þeir tekið sendibifreið ófrjálsri hendi og komu á henni að bankanum. Þeir skildu bifreiðina eftir í gangi og óku á brott eftir ránið. Þeir földu síðar ránsfenginn og reyndu á annan hátt að dylja slóð sína.

Eins og greint var frá í fjölmiðlun, hóf lögreglan þegar umfangsmikla eftirgrennslan og var myndum af ræningjunum dreift. Ábendingar bárust um að Ólafur og Jóel kynnu að hafa verið að verki. Þeir gáfu sig svo fram við lögreglu að tilstuðlan aðstandenda sinna um miðnætti sama dag og ránið var framið. Þá vísuðu þeir á ránsfenginn sem komst til skila.

Frömdu vopnað rán á óvenju grófan hátt

„Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir rán þar sem þeir notuðu vopn til að ógna fólki. Byssan reyndist síðar vera eftirlíking og haft er eftir starfsmanni bankans, sem í ákæru getur, að hún hafi gert sér grein fyrir að svo var. Hins vegar er til þess að líta að margir aðrir voru í bankanum þegar ránið var framið, bæði starfsfólk og viðskiptavinir. Þeir gátu ekki vitað hvort byssan væri raunveruleg eða ekki. Samkvæmt rannsóknargögnum er byssan 18 cm á lengd og 13 cm há. Við fyrstu sýn á mynd virðist hún vera raunveruleg. Þá er hnífurinn úr stáli, 27 cm langur, þar af er blaðið 15 cm. Aftari hluti bakkans er tenntur,“ segir orðrétt í dómi héraðsdóms.

Þá kemur fram, að Ólafur hafi verið dæmdur í 30 daga fangelsi 21. janúar síðastliðinn fyrir umferðarlagabrot og var honum því nú dæmdur hegningarauki.

Jóel Maron hefur ekki áður verið dæmdur til refsingar.

„Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærðu frömdu vopnað rán á óvenju grófan hátt. Í bankanum var nokkur fjöldi fólks, bæði starfsmenn og viðskiptavinir. Ráða má af myndbandsupptöku að þeir gengu óhikað og skipulega til verks og tók ránið stuttan tíma. Ákærðu til málsbóta er að þeir gáfu sig fram eins og lýst var og vísuðu á ránsfenginn. Þá játuðu þeir sök fyrir dómi. Þeir eru ungir að árum og ákærði Jóel Maron er með hreint sakavottorð. Samkvæmt þessu öllu þykir mega ákveða refsingu þeirra, hvors um sig, 3 ára fangelsi. Til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist þeirra eins og í dómsorði segir,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þeir eru jafnframt dæmdir til að greiða sakarkostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert