Tryggi öryggi flóttafólks

Flóttafólk við höfnina í Piraeus í Grikklandi.
Flóttafólk við höfnina í Piraeus í Grikklandi. AFP

Myllumerkið #safepassage er yfirskrift samstöðufundar sem efnt hefur verið til í miðbænum á morgun. Fundurinn er þó ekki sá eini sinnar tegundar því hann mun fara fram í yfir 30 löndum sama dag. Tilefnið er krafa um að yfirvöld virði mannréttindi fólks á flótta, að því er segir á Facebook síðu viðburðarins.

Þar kemur fram að þátttakendur muni hittast við Lækjartorg og ganga þaðan saman niður að höfn þar sem dagskrá fundarins fer fram.

„Krafan er að evrópskir valdhafar taki höndum saman og tryggi fólki í leit að vernd örugga leið inn í Evrópu.,“ segir í viðburðarlýsingunni. Þar eru einnig settar fram kröfur um að tryggðar verði löglegar leiðir inn í álfuna, vernd og skjól fyrir fólk á flótta, mannsæmandi móttökur og réttlát málsmeðferð.

Gangan frá Lækjartorgi hefst klukkan 14:00 á morgun, laugardaginn 27. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert