Með 54 kýr og 150 kindur

Ráðherra afhenti Landbúnaðarverðlaunin
Ráðherra afhenti Landbúnaðarverðlaunin Ljósmynd/Hörður Kristjánsson

Búnaðarþing 2016 var sett í dag í Hörpu við hátíðlega athöfn. Af því tilefni var landbúnaðar- og matarhátíð slegið upp þar sem gestum gafst kostur á að kynna sér úrval íslenskra búvara hjá nokkrum úrvinnslufyrirtækjum bænda, skoða búvélar og virða fyrir sér mannlífið í Hörpu.

Fjölmenni var á setningarathöfninni, en alls voru um 400 manns viðstaddir. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, flutti setningarræðu og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði gesti og afhenti hvatningarverðlaun Bændasamtaka Íslands. Landbúnaðarráðherra veitti tveimur búum Landbúnaðarverðlaun.

Fyrri frétt mbl.is: „Bændur eru líka neytendur“

Hlédís Sveinsdóttir athafnakona hlaut Hvatningarverðlaun Bændasamtaka Íslands en þau voru veitt í fyrsta skiptið í dag. Hlédís hefur um árabil stuðlað að margvíslegu frumkvöðlastarfi sem hefur nýst landbúnaðinum til góðs. Samtök ungra bænda hlutu hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið „Ungur bóndi á Snapchat“.

Sindri við setningu Búnaðarþings í dag.
Sindri við setningu Búnaðarþings í dag. mbl.is/Styrmir Kári


Landbúnaðarverðlaunin 2016 hlutu annars vegar sauðfjárbúið Hríshóll í Reykhólasveit og hins vegar bændurnir á Stóru-Tjörnum í Þingeyjarsveit. 

Ábúendur á Hríshóli eru hjónin Þráinn Hjálmarsson og Málfríður Vilbergsdóttir og hjónin Vilberg Þráinsson og Katla Ingibjörg Tryggvadóttir. Í rökstuðningi vegna verðlaunanna segir meðal annars að ábúendur á Hríshóli hljóti þau fyrir dugnað, framtakssemi og einstaklega snyrtilega umgengni á býli sínu.

Ábúendur á Stóru-Tjörnum eru Laufey Skúladóttir og Ásvaldur Ævar Þormóðsson, en þar er blandaður búskapur með sauðfé og nautgripi. Laufey er fædd og uppalin á Stóru-Tjörnum, en Ásvaldur er frá Ökrum í Reykjadal. Meðalnyt á búinu hefur farið ört vaxandi, var 6.293 lítrar árið 2008, sama ár og nýtt fjós var tekið í notkun á bænum, var 7.491 árið 2014 og fór upp í 7.860 í fyrra. Alls eru þau með 54 kýr, 60 aðra nautgripi, 150 kindur, 5 hesta, 2 hunda og 7 bordercollie-hvolpa auk þess sem 10 hænsni eru þar einnig.

Sindri afhenti Hvatningaverðlaun Bændasamtaka Íslands.
Sindri afhenti Hvatningaverðlaun Bændasamtaka Íslands. Ljósmynd/Hörður Kristjánsson


Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona og bóndi á Mýrum stýrði athöfninni í Hörpu. Dömur í Graduale Nobili sungu nokkur lög og bóndinn Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, flutti nokkra af sínum þekktustu slögurum.


Fyrir utan tónlistarhúsið var grillvagn sauðfjárbænda, hamborgarabíllinn Tuddinn ásamt dráttarvélum og öðrum tækjabúnaði sem bændur nota í sínum störfum. Meðal fyrirtækja sem voru á svæðinu eru MS, Sláturfélag Suðurlands, Sölufélag garðyrkjumanna, Flúðasveppir, Biobú, Kraftvélar, Vélfang, Fóðurblandan og Landbúnaðarháskóli Íslands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði gesti
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði gesti Ljósmynd/Hörður Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert