Segja forsendur kjarasamninga hafa staðist

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið telja að forsendur kjarasamninganna frá því …
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið telja að forsendur kjarasamninganna frá því í fyrra hafi staðist.

Það er sameiginlegt mat Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands að meginforsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá 29. maí 2015 hafi staðist að teknu tilliti til samninga sem aðilarnir hafa síðan gert.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins nú í kvöld.

Þar kemur einnig fram að SA og ASÍ hafi jafnframt gert samkomulag um að fresta skoðun á efndum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum til ársins 2017 en ríkisstjórnin kynnti viðamiklar aðgerðir við undirritun samninganna til að greiða fyrir gerð þeirra. 

Forsendunefnd samninganefnda SA og ASÍ funduðu fyrr í dag þar sem komist var að ofannefndri niðurstöðu. Segir í útskýringum nefndarinnar að kjarasamningarnir frá því í maí til september hafi byggt á þeirri launastefnu að hækka þá tekjulægstu sérstaklega og gekk það í meginatriðum eftir í öðrum kjarasamningum gagnvart sambærilegum hópum. 

Þá telur forsendunefndin einnig að kaupmáttur hafi aukist á samningstímanum.

Sjá frétt á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert