Verslingar í hart við Kringluna

Verslingar hafa blásið til mótmæla í Kringlunni á morgun. Ætla …
Verslingar hafa blásið til mótmæla í Kringlunni á morgun. Ætla þeir að snæða sitt eigið nesti á Stjörnutorgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nemendur Verslunarskóla Íslands ætla að mæta með nesti á Stjörnutorg í Kringlunni á morgun til þess að mótmæla því að bílastæðum Kringlunnar hafi verið lokað Verslingum þegar þeir komu akandi til skóla í morgun. 

Að sögn Brynju Sigurðardóttur, formanns hagsmunaráðs Nemendafélags Verslunarskóla Íslands, leggja nemendur oft í bílastæði við bókasafnið og Stjörnutorg vegna bílastæðaskorts fyrir utan Verslunarskólann. Í morgun hafi hins vegar lokanir beðið þeirra þegar leggja átti á umræddum bílastæðum.

„Þegar við komum þangað í morgun voru skilti, keðjur og læti. Allt lokað. Það voru allir frekar ruglaðir og vissu ekki hvað var að gerast,“ útskýrir Brynja fyrir blaðamanni. Hún segir að eftir fund hagsmunaráðs með Inga Ólafssyni, skólastjóra VÍ, hafi nefndin sent tölvupóst á framkvæmdastjóra Kringlunnar og óskað eftir skýringum.

Nútíminn greindi frá málinu eftir hádegi í dag. 

Hvetja nemendur til að leggja vestan megin við Kringluna

Brynja segir að í svari framkvæmdastjórans, hafi hann útskýrt fyrir þeim að bílastæðin væru í eigu verslana Kringlunnar og að bókasafnið hafi oft kvartað undan því að bílastæðin væru teppt tímunum saman. Brynja gefur ekki mikið fyrir þær skýringar framkvæmdastjórans þar sem Verslingar leggi ekki í stæðin á háannatíma hjá Kringlunni, heldur á milli klukkan 8 og 16 á daginn.

Þá hafi Kringlan hvatt nemendur skólans til þess að leggja vestan megin við Kringluna. Brynja segir það lengja leiðina sem nemendur þurfa að ganga frá bílnum í skólann, en játar vissulega að kalla megi það lúxusvandamál.

„Við teljum okkur vera helstu viðskiptavini Stjörnutorgs. Allavega á virkum dögum,“ segir Brynja um mótmælin sem Verslingar hafa boðað til á morgun. Hún segir að heitar umræður hafi skapast í umræðuhóp nemenda skólans á Facebook eftir að hún greindi þeim frá stöðu mála í morgun. 

Í umræðuhópnum hafi komið upp sú hugmynd að sniðganga Stjörnutorg á morgun og mæta þangað með nesti, „taka öll sætin en kaupa ekki neitt,“ segir Brynja sem vonast til þess að forsvarsmenn Kringlunnar dragi bílastæðalokanirnar til baka.

Brynja Sigurðardóttir
Brynja Sigurðardóttir Ljósmynd/Brynja Sigurðardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert