Fyrirliðarnir skráðu sig sem HeForShe

Í dag var nýtt samstarfsverkefni kynnt til leiks þar sem Domino‘s deildin og UN Women á Íslandi tóku höndum saman í sameiginlegu HeForShe átaki.

Fyrirliðar karlaliða Domino‘s deildarinnar skráðu sig sem HeForShe á blaðamannafundi í dag og hétu því þar með að beita sér markvisst í baráttunni fyrir jöfnum hlut kynjanna á öllum vígstöðvum.

Markmið átaksins er að láta til sín taka í barátunni fyrir kynjajafnrétti og skrá sig sem HeForShe á www.heforshe.is

HeForShe miðar að því að vekja karlmenn til vitundar um hvernig þeir geta lagt baráttunni fyrir kynjajafnrétti lið í nærumhverfi sínu. Í dag eru einn af hverjum tólf, yfir 18 ára gamlir karlmenn hér á landi, búnir að heita því að vera HeForShe. Markmiðið er að einn af hverjum fimm verði HeForShe.

Mbl.is fór á staðinn og ræddi við Mörtu Goðadóttur, kynningarstýru UN Women á Íslandi, Brynjar Þór Björnsson, fyrirliða karlaliðs KR og Justin Shouse fyrirliða karlaliðs Stjörnunnar.

Viðtalið við Justin Shouse er á ensku en ekki textað á íslensku. Hér að neðan má lesa hluta af því sem hann sagði við blaðamann, þýtt yfir á íslensku.

„Fyrir mér snýst HeForShe um jafnrétti kynjanna. Ég vinn í Alþjóðaskólanum í Garðabæ og þar sjáum við hversu mikilvægt það er að sýna stelpum og strákum jafnmikla virðingu og hvernig það getur haft áhrif á þau í framtíðinni. Á Íslandi gerum við margt til þess að ýta undir breytingar en það er gott að sjá að HeForShe sé dæmi um hvernig hægt er að styrkja konur og koma skilaboðunum um jafnrétti kynjanna út,“ sagði Shouse og bætti við að það væri frábært að sjá hvað KKÍ (Körfuknattleikssamband Íslands), ásamt stuðningi Domino‘s deildarinnar og 365 væru búnir að gera til þess að koma körfubolta kvenna í sjónvarpið.  

„Þetta snýst um að sýna að þetta sé mikilvægt og að körfubolti kvenna eigi líka skilið sæti í fjölmiðlum. Það fær ungar stúlkur sem eru að spila og fylgjast með til þess að vera nógu öruggar til að segja ´Já ég á jafnrétti skilið‘.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert