Viðbrögð við hruni Schengen skoðuð

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Þörf er á viðbragðsáætlun ef til hruns Schengen-samstarfsins kemur eða verulegar truflanir verða á landamæraeftirliti hér á landi. Þetta kom fram í máli Frosta Sigurjónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra. Sagðist hann hafa rætt þetta á fundum utanríkismálanefndar Alþingis og beindi orðum sínum til Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formanns nefndarinnar.

Birgir sagðist geta tekið undir þær vangaveltur að í ljósi breyttra aðstæðna þyrfti að fara yfir allar sviðsmyndir í þessum. Sagðist hann þeirrar skoðunar að Schengen-samstarfið hefði lengst af verið Íslendingum hagfellt. „Ég hins vegar hef áhyggjur af því hvernig það er statt í dag og er auðvitað ekki einn um það,“ sagði hann og vísaði til ummæla ýmissa forystumanna Evrópuríkja. Álagið á kerfið í dag væri þannig miklu meira en reiknað hafi verið með í upphafi.

Mikilvægt að viðhalda lögreglusamvinnunni

Birgir minnti á að Schengen-samstarfið byggðist á tveimur þáttum. Annars vegar niðurfellingu landamæragæslu á milli þátttökuríkjanna og hins vegar lögreglusamvinnu þeirra. Sagði hann að síðarnefnda samstarfið yrði áfram mikilvægt fyrir Íslendinga og yrði breyting Schengen-samstarfinu eða á þátttöku Íslands í því væri mikilvægt að viðhalda þeim þætti. Það álag sem væri á Schengen-samstarfið og breytingar innan þess væru þess eðlis að ekki væri hægt að horfa fram hjá þeim og að bregðast yrði með einhverjum hætti við þeim.

Þá upplýsti Birgir að hann vissi til þess að vinna hefði farið fram í innanríkisráðuneytinu og á vegum Ólafar Nordal innanríkisráðherra sem hann teldi koma til móts við áhyggjur Frosta af skorti á viðbragðsáætlun í þessum efnum. Von væri á því samkvæmt hans upplýsingum að innanríkisráðherra flytti Alþingi skýrslu í þeim efnum fljótlega eftir páska.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert