Hvenær má ferma barn?

mbl.is/Sigurður Bogi

Hvenær má ferma barn og hvenær ekki? Þeirri spurningu er velt upp í bréfi Hjalta Rún­ars Ómarssonar, formanns Vantrúar, til biskups Íslands þar sem sá fyrrnefndi lýsir þeirri skoðun sinni að hann telji að ekki hafi verið lagalegar heimildir fyrir fermingu hans árið 1997 þar sem hann hafi ekki verið orðinn 14 ára gamall. Vísar hann í tilskipun um ferminguna frá árinu 1759 þar sem fram komi að ekki sé heimilt að ferma barn fyrr en það er orðið fullra 14 ára gamalt.

Vísað er í tilskipunni frá 1759 til þess að ekki sé víst að barn yngra en 14 ára hafi náð nægjanlegum þroska til þess að gera sér grein fyrir því sem í fermingunni fælist. Önnur tilskipun var sett í þessum efnum 68 árum síðar þar sem biskupum var veitt heimild til þess að veita undanþágur frá fermingartilskipuninni frá 1759 þannig að yngri börn en 14 ára gætu fermst. Þó mættu ekki vanta meira upp á en sex mánuði í þeim efnum.

„Yngri réttarheimildir ganga almennt framar hinum eldri“

Spurt var um málið á vef Þjóðkirkjunnar Trú.is árið 2006 þar sem Guðmundur Þór Guðmundsson, lögfræðingur og þáverandi framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, sat fyrir svörum. Benti hann þar á að samkvæmt lögum um lögráð nr. 17/1997 ráði foreldrar barna sem ólögráða eru fyrir æsku sakir og þeir sem komi barni í foreldra stað persónulegum högum þeirra. Þótt telja megi að tilskipanirnar tvær séu enn formlega í gildi sem réttarheimildir verði að skýra þær í samhengi við yngri réttarheimildir sem gangi almennt framar.

„Yngri réttarheimildir ganga almennt framar hinum eldri og er líklegt að það eigi við í þessu tilviki, þ.e. að tilvitnuð lagaákvæði hér að framan úr lögum um lögráð og barnalögum feli það í sér að forsjármenn barna ákveði hvort barn fermist eða ekki (að sjálfsögðu í samráði við barnið). Þá ber einnig að líta til þess að ferming barna á 14. aldursári byggist á áratuga venju og jafnframt má benda á að tilskipun um ferminguna frá 1759 er ekki fortakslaus hvað þetta aldursmark varðar,“ segir í svari Guðmundar Þórs og áfram:

„Einnig verður að horfa til þess að börn í dag eru vafalaust almennt betur í stakk búin til að meta hvort þau vilji fermast eða ekki, enda hafa þau notið skólagöngu og eru líklegast mun betur upplýst almennt, a.m.k. á mælikvarða nútímans. Að öllu þessu athuguðu er það mitt mat að ferming barna yngri en 14 ára sé heimil og er því vart um lögbrot af hálfu starfsmanna Þjóðkirkjunnar að ræða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert