Búnir eftir átján tíma göngu í skála

Göngumennirnir við upphaf leiðangursins.
Göngumennirnir við upphaf leiðangursins. mynd/Yfir jöklana þrjá

Fjórir skíðagöngumenn sem freista þess að þvera þrjá stærstu jökla landsins komust í skála á Grímsfjalli snemma í morgun eftir átján klukkustunda göngu í gær. Arngrímur Hermannsson, faðir tveggja þeirra, segir þá hafa verið algerlega búna eftir gönguna en glaða yfir áfangasigrinum.

Leiðangur fjórmenninganna hófst á föstudag en undanfarnar þrjár nætur hafa þeir hafst við í tjaldi uppi á Vatnajökli. Arngrímur segir að svo margar nætur í tjaldi á jökli séu erfiðar enda blotni tjaldið, svefnpokar og búnaður vegna hitamunarins innan og utan tjaldsins. Von var á slæmu veðri í dag og því réru göngumennirnir því öllum árum að því að komast í skála á Grímsfjalli í gær. Til þess að svo mætti vera bjuggu þeir sig undir langan dag.

„Þeir urðu að ganga í átján klukkutíma sem er náttúrulega ótrúlega mikið og langt. Þeir höfðu það alla leið. Síðasti spölurinn upp í Grímsfjall er erfiður í myrkri og bleytu en þeir tóku mjög skynsamlega ákvörðun um að finna skálann. Þeir eru allir mjög glaðir yfir þessum áfangasigri að komast á þennan stað og geta farið að þurrka tjöldin, svefnpokana og allt saman,“ segir Arngrímur sem sjálfur afrekaði að þvera jöklana þrjá árið 1976.

Nýidalur næsti áfangastaður

Brekkan upp Grímsfjall er erfið viðureignar og telur Arngrímur að það hafi bjargað fjórmenningunum að þeir hafi stoppað og eldað sér léttan kvöldverð um klukkan átta í gærkvöldi áður en þeir lögðu á hana. Þegar þeir komust í skálann um klukkan fimm í morgun höfðu þeir lagt að minnsta kosti fjörutíu kílómetra að baki.

Dagurinn í dag var hvíldardagur hjá þeim félögum en Arngrímur segir að þeir stefni að því að halda för sinni áfram á morgun. Veðurspáin sé góð. Næsti áfangastaður þeirra er skálinn á Nýjadal á Sprengisandi. Það ætti að taka að minnsta kosti tvo daga og jafnvel þrjá, að sögn Arngríms.

Hópinn skipa þeir Hallgrímur Örn og Hermann, synir Arngríms, Óskar Gústavsson og Eiríkur Örn Jóhannesson. Með ferðinni vilja þeir heiðra minningu leiðangurs sexmenninga sem gengu sömu leið fyrir fjörutíu árum. Það voru auk Arngríms þeir Rúnar Nordquist, Þorsteinn Guðbjörnsson, Hjalti Sigurðsson, Jóhannes Ellert Guðlaugsson og Þór Ægisson, sem allir voru félagar í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík.

Leiðin í heild er um 300 kílómetrar í loftlínu, en áætluð gönguleið er 350-400 kílómetrar. Gert er ráð fyrir að ferðin taki rúmlega tvær vikur.

Hægt er að fylgjast með leiðangrinum á vefsíðunni Yfir jöklana þrjá.

Fyrri frétt mbl.is: Fyrsta nóttin á Vatnajökli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert