Fyrsta nóttin á Vatnajökli

Á leiðinni upp Brúarjökul í dag.
Á leiðinni upp Brúarjökul í dag. Mynd/yfirjoklana3.is

Fjórmenningarnir sem lögðu af stað í gönguskíðaleiðangur þar sem þvera á alla þrjá stærstu jökla landsins á ferð frá Austurlandi til Vesturlands, eru nú komnir upp á Brúarjökul og gista á jöklinum í tjöldum í 800 metra hæð. 

Hópinn skipa þeir Hallgrímur Örn og Hermann Arngrímssynir, Óskar Gústavsson og Eiríkur Örn Jóhannesson. Með ferðinni eru þeir að heiðra minningu sexmenninga sem gengur fyrir 40 árum sömu leið, en það voru þeir Rúnar Nordquist, Þorsteinn Guðbjörnsson, Arngrímur Hermansson, Hjalti Sigurðsson, Jóhannes Ellert Guðlaugsson og Þór Ægisson, sem allir voru félagar í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík.

Leiðin í heild er um 300 kílómetrar í loftlínu, en áætluð gönguleið er 350-400 kílómetrar. Gert er ráð fyrir að ferðin taki rúmlega tvær vikur.

Næstu þrjá daga mun hópurinn ganga yfir þveran Vatnajökul og gista í tjöldum í tvær nætur í viðbót þangað til komið er í Grímsfjalla-skála. Þetta getur verið gríðarlega erfiður leggur þar sem vindar og veður á jöklinum eru óárennilegt.

Hægt er að fylgjast með leiðangursmönnum í rauntíma á vefsíðu þeirra, en þeir notast við Spot staðsetningartæki til þess.

Lesa má nánar um leiðangurinn og kynna sér búnað og þjálfun fyrir ferðina á vefsíðunni Yfir jöklana 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert