Leita göngumanns vestur af Dettifossi

Björgunarsveitarmenn við störf. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn við störf. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit hefur verið kölluð út vegna göngumanns sem er í vandræðum vestur af Dettifossi. Á svæðinu er mikill snjór og svæðið því frekar erfitt yfirferðar.

Virðist göngumaðurinn óttast um að komast ekki á áfangastað, auk þess sem hann segist vera orðinn kaldur og slæptur, samkvæmt tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

„Björgunarsveitamenn eru að tygja sig til ferðar en þeir ætla að fara á jeppum niður að Dettifossi þaðan sem þeir ætla á vélsleðum að Grjóthálsi en þar telur maðurinn sig vera,“ segir í tilkynningunni.

„Hæglætis veður er en snjómugga af og til og því blint en björgunarsveitarmenn vonast til að vera komnir til baka með manninn áður en dimmir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert