„Það er bara borðað seinna“

Mynd af bílum björgunarsveitanna sem tóku þátt í útkallinu í …
Mynd af bílum björgunarsveitanna sem tóku þátt í útkallinu í dag. Ljósmynd/Kristinn Bjarnason

Slysin gera ekki boð á undan sér og þurfa björgunarsveitir landsins því að vera til taks öllum stundum, einnig um páskana. Björgunarsveitir voru meðal viðbragðsaðila sem kallaðir voru út í dag eftir að vélsleðar í ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland keyrðu fram af snjóhengju við Jarlhettur sunnan við Langjökul.

Frétt mbl.is: Leiðsögumaðurinn fór fram af

Að sögn Kristins Bjarnasonar, formanns björgunarsveitar Biskupstungna, var lítið mál að manna útkallið í dag. Tveir úr sveitinni hafi farið í útkallið og tveir til viðbótar hafi verið tilbúnir að fara af stað.

„Það er bara borðað seinna, það er oft svoleiðis,“ segir Kristinn spurður að því hvernig það sé að fara í útkall á helgidögum sem þessum. Auk björgunarsveit Biskupstungna voru fleiri björgunarsveitir mættar á vettvang, tilbúnar að ferja sjúkraflutningamenn að slysstað en þess gerðist þó ekki þörf.

„Það komu flestar björgunarsveitir af þeim níu björgunarsveitum sem eru á svæði þrjú,“ segir Kristinn og bætir við að allar björgunarsveitirnar hafi verið lagðar af stað.

Beina verkefnum til verktaka í vaxandi mæli 

Kristinn segir að björgunarsveitir þurfi stundum að fara í björgunarleiðangra á svæðið við Jarlhettur en slíkum útköllum hafi þó fækkað á undanförnum árum. Það sé m.a. vegna þess að björgunarsveitir séu í vaxandi mæli farnar að beina verkefnum frá sér þegar ferðamenn hafa fest bifreiðar sínar. 

„Við förum ansi oft inn þegar túristarnir kjánast þarna inn eftir. Þetta fer minnkandi enda erum við farnir að beina þeim verkefnum frá okkur, oft sem verktakar taka þetta enda eru þetta oft verkefni sem þarf að leysa svoleiðis þegar það er enginn háski,“ segir Kristinn.

Jarlhettur við Langjökul.
Jarlhettur við Langjökul. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert