Fimmtán systkin - Þúsund ár

Axlarbörnin hafa einungis þrívegis verið öll á sama stað á …
Axlarbörnin hafa einungis þrívegis verið öll á sama stað á sama tíma. Einu sinni í fermingu eins bróðurins og svo við jarðarfarir foreldra sinna en myndin hér að ofan var tekin við jarðarför móður þeirra. Úr einkasafni

Á forsíðu Morgunblaðsins var því ranglega haldið fram að systkinin væru afkomendur Axlar-Björns. Eru systkinin, sem og aðrir lesendur, beðin velvirðingar á þessum mistökum.

Í dag fagna systkinin frá Öxl í Breiðuvíkurhreppi á Snæfellsnesi sérstæðum áfanga sem aðeins tveir aðrir núlifandi systkinahópar hér á landi hafa náð.  Samanlagt eiga þau nefnilega þúsund ára afmæli.

Íslandsmetið í háum aldri systkinahópa eiga systkin frá Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum sem urðu samtals 1.215 ára. Tveir núlifandi hópar hafa náð yfir þúsund árin en það eru systkin frá Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð sem eru 1.030 ára til samans og svo systkinin frá Kjóastöðum í Biskupstungum sem eiga 1.027 ár til samans.

Þúsaldarhópurinn frá Öxl telur átta systur og sjö bræður, fimmtán alls. Eins og augljóst er þurfa systkin að vera nokkuð mörg til að ná slíkum aldri og þegar blaðamaður Morgunblaðsins sest niður með þeim Guðbjörgu, Sigurði, Jóhannesi og Kristlaugu hefur Sigurður, sem er yngstur bræðranna, það á orði að líklega eigi ekki margir hérlendir hópar eftir að ná þeim áfanga.

Raunar ná þau systkinin aðeins að halda í slétt þúsund ár í þrjá daga, frá 69 ára afmælisdegi Ólafs í dag, 31. mars, til 4. apríl.

„Þá verður hann 75 ára,“ segir Sigurður og bendir á Jóhannes sem glottir við. „Þá verðum við þúsund og eins árs.“

Systkinin eru samheldin og hittast reglulega yfir árið. Þau fagna foreldrum sínum heitnum á afmælisdögum þeirra, fara í útilegu með börn og buru auk þess sem þau halda jólaball ár hvert. Þegar kemur að slíkum viðburðum, þar sem niðjum þeirra eru einnig boðið með dugir ekkert minna en að leigja sal; þau eiga samtals 35 börn, 47 barnabörn og þrjú á leiðinni, þar af eitt barnabarnabarnabarn Önnu og Karls.

Eðli málsins samkvæmt er það aldrei svo að allir sjá sér fært að mæta og raunar gildir það sama um systkinahópinn sjálfan.

„Við höfum bara hist öll þrisvar sinnum, systkinin,“ segir Jóhannes. Blaðamaður hváir við og hann útskýrir að þau hafi aldrei verið öll á heimilinu á sama tíma.

Þau hafi komið saman við fermingu Eiríks bróður síns og svo við jarðarfarir foreldra sinna.

Þau Sigurður, Jóhannes, Kristlaug og Guðbjörg setttust niður með blaðamanni …
Þau Sigurður, Jóhannes, Kristlaug og Guðbjörg setttust niður með blaðamanni Morgunblaðsins. mbl.is/ Styrmir Kári

Guð réð

Foreldrar systkinanna frá Öxl voru Karl Eiríksson bóndi, sem varð 81 árs og Anna Ólafsdóttir sem varð 82 ára.

Þau kynntust þegar Anna kom sem kaupakona að Gröf í Breiðuvíkurhreppi þar sem Karl bjó ásamt foreldrum sínum. Þau eignuðust börnin 15 á 19 árum.

„Pabbi sagði bara að guð réði, það var ekkert flóknara en það,“ segir Guðbjörg og hlær.

„Ég talaði einu sinni við mann sem hafði komið vestur að vinna við skurðgröft. Hann talaði um hvað það hefði verið gott að vera þarna, alltaf nóg að borða og svona.

Þegar ég spurði hann hvenær það hefði verið sagði hann: Ég man nú ekki hvaða ár það var en börnin voru 14 og pabbi þinn sagðist vera hættur. Ég sagði honum að það hefði verið 1958 og hann hefði ekki verið hættur því þá átti ég eftir að koma.“

Í torfbæ fyrstu árin

Miklar breytingar hafa orðið á búsháttum í sveitum landsins frá uppvexti systkinahópsins.

Karl og Anna fluttu á Öxl árið 1941, þegar Jóhannes var nýfæddur og elsti sonurinn, Reimar, var eins árs. Fyrstu fjögur árin bjó fjölskyldan á Öxl í torfbæ sem var aðeins eitt stórt rými, með panelklæðningu að innan og eldavél fyrir miðju og svo var sofið meðfram veggjunum.

Þau byggðu sér þó fljótlega lítið steinhús, með þremur herbergjum og eldhúsi sem þau fluttu inn í árið 1945, þá með fimm börn.

„Fyrstu árin var notaður mór til hitunar,“ segir Jóhannes. „Það var skemmtilegur tími, þar sem maður þurfti að taka hann upp og þurrka.“

„Já, það var mikil vinna í kringum það, stinga hann upp og keyra á hjólbörum,“ grípur Sigurður inn í.

Guðbjörg hlær, kannski að svipnum á blaðamanni yfir skemmtun gamla tímans, og segir skemmtunina við móinn hafa falist í því að fá að fara af bænum.

„Það þurfti ekki mikið meira en það. Og að fá að heyja annars staðar var rosalegt ævintýri, þó maður hitti jafnvel ekki neinn.“

Þau Anna og Karl áttu miklu barnaláni að fagna en …
Þau Anna og Karl áttu miklu barnaláni að fagna en það var víðar. Anna kom sjálf úr fjórtán systkina hópi og bróðir Karls eignaðist ellefu börn. Úr einkasafni

Steinaldarmenn í augum yngri kynslóðar

Ofangreindar uppeldisaðstæður voru mjög svo hverfandi á seinni hluta aldarinnar og afar fjarlægar flestum þeim sem ólust upp í þéttbýli. Móhitun, rafmagnsleysi og fjórtán systkin þekkja nútímabörnin síðan nánast aðeins af afspurn.

„Yngri kynslóðin horfir svolítið á mann eins og steinaldarmann,“ segur Guðbjörg. „Ég rek mig líka svolítið á það í vinnunni þegar ég rifja upp eitthvað svona, þá finnst mér ég vera 150 ára!“

Kristlaug segir það eitt að fylgjast með framvindu í heyskap segja ýmislegt um hversu mikið hafi breyst á skömmum tíma. „Við erum alin upp við hrífu og hestasláttuvél en nú kemur mannshöndin hvergi nærri.“

Á Öxl voru kindur og kýr og börnin voru látin ganga í öll verk hvort sem það var að heyja eða keyra vinnuvélarnar, sem Karl snerti sjálfur helst ekki á. Dráttarvél kom ekki á bæinn fyrr 1957 og rafmagnið kom 1964.

„Þegar bændur fengu almennt skurðgröfur til að grafa skurði notaði pabbi krakkana. Vinnuaflið var heimafengið,“ segir Kristlaug sem segir það engu hafa skipt hvort um ræddi stráka eða stelpur. Allir hafi gengið í öll störf. „Mjaltavélin kom ekki fyrr en í kringum 1970,“ skýtur Sigurður að. „Þangað til var það allt gert í höndunum.“

Dagurinn sem lömbin komu

Mörgum kunna að þykja aðstæðurnar sem systkinin ólust upp við fátæklegar en þau segjast aldrei hafa liðið neinn skort.

„Mamma sagði það einhvern tímann við mig að sér hefði aldrei fundist þau fátæk því þau áttu alltaf nóg að borða,“ segir Kristlaug. „Það er samt ótrúlegt hvernig þau gátu þetta, því mæðiveikin fór svo illa með stofninn hjá þeim,“ segir Jóhannes.

Það var þó enginn skortur á grænmetinu úr garðinum á Öxl þó lömbin hefðu þagnað og systkinin telja sín á milli upp kartöflur, rófur, grænkál og ýmislegt annað góðmeti sem hægt var að veiða upp úr jörðinni.

„Ég man alltaf eftir deginum sem nýju lömbin komu,“ segir Jóhannes. „Það var 6. október 1949. Þá fékk pabbi tíu lömb til að byrja aftur og sama dag fæddist Elín systir. En við spáðum ekkert í það, það var svo mikill spenningur yfir nýju lömbunum en hitt var engin nýlunda.“

Fyrsta dráttarvélin kom á Öxl árið 1957. Börnin lærðu að …
Fyrsta dráttarvélin kom á Öxl árið 1957. Börnin lærðu að keyra hana en faðir þeirra hafði lítinn áhuga á að aka henni. Úr einkasafni

Trúði á guð og Sjálfstæðisflokkinn

„Mamma var alltaf grönn og létt á sér,“ segir Jóhannes.

Þau systkinin segja Önnu hafa verið iðna við að hlaupa um fjöll og firnindi þar til hún lærbrotnaði árið 1961. Það hafi heft hana mikið seinni hluta ævinnar. Hún hafi ekki verið gefin fyrir slagsmálin sem nánast óhjákvæmilega fylgdu svo stórum barnahópi en gefist upp á að reyna að stilla til friðar.

Systkinin lýsa föður sínum sem hörkuduglegum, réttsýnum, fylgnum sér og ströngum og afar trúuðum. „Hann trúði á guð og Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Jóhannes og þau hlæja öll.

„Hann treysti okkur, ég var farinn að keyra dráttarvél mjög ungur,“ segir Sigurður. „Það var bara það sem þurfti, því pabbi keyrði aldrei dráttarvélina. Við urðum bara að gera þetta og þegar þeir eldri fóru að heiman tók sá næsti við.“

Fengu lítinn kvóta

Það vill einmitt vera svo að næsta kynslóð tekur við af foreldrum sínum. Þannig tók Reimar, elsti bróðirinn, við Öxl þegar foreldrarnir fluttu í borgina árið 1981.

Innt eftir því hvort þau hafi viljað leika eftir barnalán foreldranna er Jóhannes snöggur til svara og segir þau hafa forðast það. Kristlaug hlær við. „Þau eru tvö systkinin sem hafa eignast fjögur börn og það er það mesta,“ segir hún.

Sigurður skýtur inn í að hann segi jafnan að þau hafi fengið lítinn kvóta því faðir þeirra hafi tekið hann allan. Guðbjörg segir það sama hafa gilt um sig og föður sinn, guð hafi ráðið en í hennar tilfelli urðu börnin bara tvö. Hún hefði hinsvegar seint viljað 15 stykki.

„Þetta hefði ekki gengið nema í sveit, þetta hefði aldrei getað gengið í Reykjavík. Maður hefur stundum hugsað út í það hvort fjölskyldan hefði þá ekki tvístrast.“

Barnafjöldinn er þó ekki einsdæmi í ætt þeirra Axlarbarna. Móðir þeirra átti sjálf 13 systkini og föðurbróðir þeirra eignaðist 11 börn.

„Þeir voru að keppast. Svo 1951 þá hættir Siggi en pabbi hélt áfram.“

Enginn Axlar-Björn í hópnum

Jörðin Öxl er líklega þekktust fyrir annan ábúanda sem við hana var kenndur, Axlar-Björn. Sá er líklega einn þekktasti fjöldamorðingi Íslandssögunnar þó þjóðsögunum beri ekki saman um hversu marga hann myrti. Nafnið Björn hefur því líklega ekki þótt heppilegt fyrir bræðurna í hópnum.

Margan myndi taka að skorta innblástur í nafnagjöf þegar börnin eru orðin eins mörg og raun bar vitni í tilfelli þeirra Önnu og Karls. Sú virðist þó ekki hafa verið raunin.

„Þegar þau eru búin að eiga þrettán börn eiga þau meira að segja nóg eftir og nefna okkur yngstu tveimur nöfnum,“ segir Guðbjörg og hlær.

Þau systkinin telja ekkert þeirra hafa verið nefnt út í bláinn. Sum heita þau eftir vinum og vandamönnum en í sumum tilvikum dreymdi móður þeirra nöfnin, eins og algengt var á þeim tíma.

„Svo eru líka tilviljanir eins og með Emmu,“ segir Sigurður. „Hún heitir eftir Emilíu Jónasdóttur leikkonu sem kom vestur.“

„Hún veiktist í útilegu og var send [á Öxl] og var í nokkrar vikur.“

Hópurinn er fjölmennur og þykjast sumir sjá sama sauðarsvipinn á …
Hópurinn er fjölmennur og þykjast sumir sjá sama sauðarsvipinn á þeim öllum. Því eru systkinin sjálf ekki endilega sammála en segja kímnigáfuna þó erfast og það jafnvel til systkinabarnanna. Úr einkasafni

Og engin slagsmál

Eins og áður sagði hefur systkinahópurinn aðeins náð að vera á sama stað á sama tíma þrisvar sinnum á lífsleiðinni, í fermingu og svo í jarðarförum foreldra sinna. Á því verður ekki breyting í dag, þrátt fyrir að tilefnið sé ríkulegt. Systkinin ætla vissulega að gera sér glaðan dag en hópurinn er dreifður um landið og ekki allir hafa tækifæri til að koma til borgarinnar að fagna. Það fer þó ávallt vel á með þeim systkinum og niðjum þeirra þegar þau hittast og þykir mörgum ótrúlegt að enginn rígur eða illindi séu á milli.

„Fyrir nokkrum árum vorum við með útilegu á Laugalandi,“ segir Sigurður. „Það kom til okkar maður á sunnudegi og spurði hvaða hópur þetta væri. Þegar við sögðumst vera fjölskylda spurði hann: Hvað? Og engin slagsmál?“

Systkinin hlæja og Kristlaug rifjar upp svipuð ummæli manns sem leigði hópnum aðstöðu í Varmahlíð „Já! Það var bara engin lögregla og ekkert vesen!“

En skyldu þau þá vera lík, systkinin? „Ekki finnst mér það,“ segir Sigurður ákveðinn. „En það segja allir að það sé sami sauðarsvipurinn á okkur.“

„Og kímnigáfan,“ segir Kristlaug sem kveðst jafnvel sjá hana í systkinabörnunum og Guðbjört tekur undir: „Já húmorinn er ríkur í okkur öllum.“

Treystu á verndandi hendi

Tvívegis í gegnum viðtalið við systkinahópinn fær undirrituð símtal frá föður sínum. Símtölin stöðva upptökuna á nýaldargræjunni sem liggur milli kaffibollanna. Því þarf undirrituð að grípa símann, hvæsa á föður sinn í flýti og stilla svo aftur á upptöku með afsökunum um að faðirinn hafi tíma í meiri áhyggjur af hverju barni en ella þar sem afkvæmin eru bara tvö.

„Pabbi hefði orðið hokinn ef hann hefði þurft að vera að fylgjast með okkur öllum,“ segir Kristlaug og brosir út í annað.

Guðbjörg minnist þess þegar hún var 17 ára og ákvað að finna sér vinnu erlendis. „Þau sögðu bara: Já, er það? Þetta var ekkert tiltökumál, okkur var bara treyst og eins treystu þau á að almættið héldi verndarhendi yfir okkur og það virðist hafa gert það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert