„Þekktasti fjárglæframaður heimsbyggðarinnar“

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.

Forseti Alþingis bað þingmenn að gæta orða sinna eftir að Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, kallaði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, þekktasta fjárglæframann heimsbyggðarinnar í umræðum á Alþingi í dag.

Stjórnarandstæðingar hafa krafist afsagnar forsætisráðherra á þingfundi sem hófst kl. 15 vegna uppljóstrana um að hann hafi átt hlut í aflandsfélaginu Wintris Inc. á Tortóla í félagi við eiginkonu sína og ekki greint frá því. Mál hans hefur vakið heimsathygli eftir að skjölum frá lögmannsstofu í Panama var lekið til fjölmiðla og birt í gær.

Guðmundur var einn fjölmargra stjórnarandstæðinga sem kvaddi sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta. Sagði hann að frægt skilti úr búsáhaldabyltingunni sem á var letrað „Helvítis, fokking fokk“ lýsti því hvernig honum liði. Mál forsætisráðherra hefði sett heiðarlegt starf fjölmargra við að byggja upp traust og tiltrú í samfélaginu í „klessu“.

„Við erum með frægasta fjárglæframann heimsbyggðarinnar á forsíðum allra blaða þessa dagana og hann situr hér, hæstvirtur forsætisráðherra. Þekktastur fyrir það að vera með pening sinn í skattaskjólum,“ sagði Guðmundur.

Sló Einar Kr. Guðfinsson, forseti Alþingis, þá ákveðið í bjöllu sína og hvatti þingmenn til að gæta orða sinna.

Spurði Guðmundur þá þeirrar spurningar hvort að við myndum vilja að allir Íslendingar geymdu peningana sína á Tortóla.

„Af hverju ekki? Af hverju er það svona slæmt? Af hverju má hæstvirtur forsætisráðherra það augljóslega ekki?“ spurði þingmaðurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert