Vilja svör fyrir lok dags

Stjórnarandstaðan gengur út frá því að fyrir lok dagsins í dag liggi fyrir hvort að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi sagt af sér embætti forsætisráðherra eða hvort hann hyggist fara í leyfi. Þetta segir Brynhildur Pétursdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar í samtali við mbl.is.

„Þurfum að fá á hreint hvort forsætisráðherra hafi sagt af sér,“ segir Brynhildur og bætir við að tímamörk ríkisstjórnarflokkanna til að skýra stöðu mála sé í raun liðin. „Við getum ekki unað við fréttatilkynningar í skjóli nætur,“ bætir hún við og vísar þar til tilkynningar sem kom úr forsætisráðuneytinu í gærkvöldi til erlendra fréttamanna þar sem sagt var frá því að Sigmundur væri að fara frá tímabundið.

Brynhildur segir að vantrauststillaga minnihlutans á ríkisstjórnina verði endurnýjuð ef ný ríkisstjórn tekur við. Hún segir rétt að ríkisstjórnin endurnýi umboð sitt í kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert