„Enginn sagt fyrirgefðu við gerðum mistök“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Photo: Iceland Monitor/Eggert

Það er skýr krafa í samfélaginu um vantraust þar sem um er að ræða sömu ríkisstjórn og var að störfum á landinu og var í gær. „Eina sem hefur breyst er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er háttvirtur þingmaður en ekki hæstvirtur ráðherra.“ Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í ræðu sinni um vantraust á ríkisstjórnina.

Birgitta nefndi í ræðu sinni að enginn hefði komið upp í pontu þingsins og beðist afsökunar, „ekki til þingamanna heldur þjóðarinnar. Enginn sagt fyrirgefðu við gerðum mistök.“ Sagði hún þetta einkennandi fyrir ríkisstjórnina.

Þá fór hún yfir þau málefni sem ríkisstjórnin hefði unnið að og væru framundan og sagði að mikið ósætti hefði verið milli ríkisstjórnarflokkanna á kjörtímabilinu og málefni eins og verðtryggingin hefðu ekki verið afgreidd þrátt fyrir loforð þar að lútandi. Þá hefðu húsnæðisfrumvörpin heldur ekki klárast. Sagði hún að ef ríkisstjórnin vildi fá að starfa áfram þyrfti hún að gefa staðfestingu á því að flokkarnir gætu komið málum í gegn án þess að bregða fæti fyrir hvorn annan.

Birgitta ítrekaði nokkrum sinnum í ræðu sinni að um væri að ræða sömu ríkisstjórn og hefði verið áður.  „Þetta er ekki ný ríkisstjórn, nákvæmlega sama ríkisstjórnin með annað höfuð, undir nákvæmlega sama formanninum.“ Sagðist hún hafa góða reynslu af því að starfa með Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, í nefndum þingsins, en að sú atburðarás sem hefði orðið síðustu daga væri ekki „nýja Ísland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert