Yrsa vandar ráðamönnum ekki kveðjurnar

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur er flugbeitt í gagnrýni sinni á stjórnvöld …
Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur er flugbeitt í gagnrýni sinni á stjórnvöld í New York Times. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar kunna að fyrirgefa kynferðislega tilraunastarfsemi fjármálaráðherra en eftir hrun hafa þeir enga þolinmæði gagnvart skuggalegum fjármálagjörningum. Þetta segir skáldsagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir í pistli á heimasíðu New York Times.

Pistillinn ber titilinn The Cheating Politicians of Iceland, en leiða má líkur að því að þar sé Yrsa að vísa til notkunar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á framhjáhaldssíðunni Ashley Madison og aflandsfélaga íslenskra ráðamanna.

„Ísland, íbúafjöldi 330.000, er friðsælasta land í heimi. Þetta er land þar sem ofbeldisglæpir eru fátíðir og fjárkúgarar gefa kvittun. Við erum ekki vön því að vera sett í flokk með spilltustu stjórnvöldum í heimi. En hér erum við, í forgrunni allrar umfjöllunar um Panama-skjölin.“

Þannig hefst pistill Yrsu þar sem hún segir frá mótmælum á Austuvelli; reiði vegna uppljóstrana um að ráðamenn hafi laumað fjármunum úr landi. Gjörningum sem ganga gegn þeirri grundvallarhugmynd að allir séu jafnir.

„Það er vanalega auðveldara að leysa vandamál smárra þjóða heldur en í stórum og flóknum samfélögum. Það er ekki tilfellið þegar um er að ræða spillingu meðal forréttindaelítunnar. Í Bandaríkjunum talið þið um sex gráðu fjarlægð [six degrees of separation] milli fólks. Hér á Íslandi, í okkar mikla fámenni, er gráðan ein. Þegar þú hittir einhvern þá kemstu að því innan nokkurra mínútna að þið eigið sameiginlegan ættingja, vin, samstarfsmann, óvin eða fyrrverandi. Það gerir það erfiðara að forðast að hygla nánum og virktarvinum.“

Í pistlinum fjallar Yrsa um náin tengsl áhrifamanna í þjóðfélaginu og hvernig Íslendingar héldu að þeir hefðu skilið við gömlu pólitíkina. Íslendingar þrá breytingarnar sem þeim var lofað, segir hún, og kynnir Pírata til sögunnar.

„Í dag höfum við bráðabirgðaforsætisráðherra sem virtist dálítið týndur og óformlega klæddur þegar hann var kynntur almenningi á miðvikudag. Hann virðist ekki eiga bindi. En hann á ekki aflandsreikning. Né Ashley Madison aðgang. Það er eitthvað.“

Pistil Yrsu má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert