Tímabundið bann við bankasölu

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp til laga um tímabundið bann við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki strax gildi hljóti það samþykki og gildi til 1. nóvember á þessu ári. Fram kemur í greinargerð að með frumvarpinu sé brugðist við fordæmalausu ástandi sem skapast hafi í íslenskum stjórmmálum. Ný ríkisstjórn hafi boðað til almennra kosninga næsta haust og staða hennar væri mjög ótrygg.

„Má þannig í raun líkja núverandi ríkisstjórn við starfsstjórn sem ætlað er að sitja fram yfir kosningar þegar ný ríkisstjórn mun taka við. Ekki er því eðlilegt að sú ríkisstjórn sem nú situr geti tekið afdrifaríkar og stefnumarkandi ákvarðanir á þeim fáu mánuðum sem eftir eru af starfstíma hennar. Slíkar ákvarðanir ber að bíða með að taka fram yfir næstu kosningar þar sem stjórnmálamenn munu fá nýtt umboð frá kjósendum til góðra verka.“

Fram kemur að þar sem núverandi ríkisstjórn njóti ekki trausts og ljóst sé að hún muni aðeins sitja í nokkra mánuði sé ekki eðlilegt að fjármála- og efnahagsráðherra hafi þá heimild að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum getur verið stefnumarkandi ákvörðun fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Eignnarhald ríkisins á nánast öllu fjármálakerfinu gefur möguleika á því nú að endurskoða fjármálakerfið í heild sinni standi til þess pólitískur vilji.“

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert