Kynfræðslan er ekki fyrir alla

Hinsegin nemendur upplifa að ekki sé gert ráð fyrir þeim …
Hinsegin nemendur upplifa að ekki sé gert ráð fyrir þeim í þeirri kynfræðslu sem boðið er upp á í skólum borgarinnar. Ómar Óskarsson

Kynfræðsla í grunnskóla er eldfimt efni, en kennarar gera sitt besta. Hinsegin nemendur upplifa þó að ekki sé gert ráð fyrir þeim í þeirri kynfræðslu sem boðið er upp á í skólum borgarinnar. Þetta er niðurstaða eigindlegrar rannsóknar sem Sólveigar Rós, M.A. í stjórnmálafræði sem nú er skáð í M.A. nám í kynjafræði, vann að í  samstarfi við skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Sólveig Rós kynnir rannsókn sína á málþinginu Typpið mun finna þig – Gagnkynhneigð, grunnskólinn og hinsegin fræðsla sem haldið er í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur klukkan fjögur í dag. Sólveig Rós tók viðtöl við kynfræðslukennara í grunnskólum í Reykjavík og ungmenni sem skilgreindu sig sem hinsegin, og sem ýmist voru í grunnskóla eða sem voru nýútskrifuð, um upplifun þeirra af kynfræðslunni. Hún skoðaði síðan einnig kennsluefnið, tvær kennslubækur sem komu út 2006 og kynfræðsluvef sem Námsgangastofnun gefur út.

Útilokar alla sem upplifa kynlíf á annan hátt

„Ef við viljum að kynfræðslan sé fyrir alla, þá er hún það ekki,“  segir Sólveig Rós og bendir á að í stefnaskrá Reykjavíkurborgar sé talað um að allt fræðsluefni og kennsla eigi að taka mið af því að nemendur séu gagnkynhneigðir, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og transgender.

Skref séu vissulega tekin í þá átt í námsefninu sem boðið er upp á, með því að taka fram að margskonar kynhneigðir séu til og að kynlíf sé allskonar og þá sé minnst á samkynhneigð en trans einstaklingar og instersex einstaklingar séu ekki ræddir. Öll frekari umfjöllun beinist síðan að hefðbundnu gagnkynhneigðu kynlífi og getnaðarvörnum og kynsjúkdómum því tengdu. „Þetta útilokar ekki bara samkynhneigða einstaklega, heldur líka þá sem upplifa kynlíf á einhvern annan hátt.“

Sólveig Rós segir að þeir kennarar sem hún ræddi við hafi verið mjög meðvitaðir um að það væru hinsegin nemendur í skólanum og að þeir hafi reynt að gera ráð fyrir þeim með því t.d. að ræða um fólk og einstaklinga í stað þess að tala um stráka og stelpur í útskýringum sínum. Þeir hafi þó látið nemendur um að koma með spurningar í stað þess að eiga frumkvæði. „Þannig að ég náði ekki alveg að sjá hversu mikið frumkvæði þau tóku um að hafa hinsegin málefnin alltaf fléttuð inn í.“

Sú upplifun kennaranna að þeir gerðu ráð fyrir hinsegin nemendum í kennslunni, var þó á skjön við upplifun þeirra nemenda sem Sólveig Rós ræddi við. „Þau upplifðu mjög kynjaðar væntingar. Þeim var sagt hvernig þeirra framtíð myndi vera á kynferðislega sviðinu – þau myndu verða gagnkynhneigð, þau myndu stunda hefðbundnar samfarir og þau myndu hafa áhuga á kynlífi.“ Hún bendir á að eikynhneigðir upplifi sig til að mynda oft mjög útilokaða í slíkri orðræðu.  Þá hafi trans fólk ekki verið sátt við að nemendum væri skipt í kynjaða hópa sem fengu fræðslu um sitthvorn hlutinn.

Upplifðu sig loks örugg að spyrja

Titil rannsóknarinnar „Typpið mun finna þig“ tók Sólveig Rós orðrétt úr viðtölum sínum nemendur. „Þegar ég spurði hver væru heildarskilaboð kynfræðslunnar þá sögðu þau að það væri gagnkynhneigð, að þau muni stunda kynlíf, þau muni verða svona og að typpið mun finna þig. Þetta var eitthvað sem ætti að gerast og þau voru bara svolítið hrædd um að þetta myndi gerast og þá þyrftu þau að vera tilbúin.“

Ekki er endilega auðvelt að bera fram spurningar um kynfræðslu fyrir þann sem e.t.v. upplifir sig sem eina krakkann í bekknum sem er öðruvísi og segir Sólveig Rós að kennararnir hafi nefnt að þeir reyndu að bjóða upp á nafnlausar spurningar vegna þessa. „Þá minntust einn eða tveir nemendur á að þegar Samtökin 78 komu í heimsókn að þá hefðu þau boðið upp á nafnlausar spurningar sem þeim fannst alveg frábært. Þá gátu þau loks spurt spurninga sem þau höfðu lengi viljað fá svör við, en höfðu ekki upplifað sig örugg að spyrja í hefðbundnum tíma.“

Nota opið orðalag

Hún segir að nemendur gjarnan vilja sjá meira jafnvægi í kennsluefninu, til dæmis með því að ef fjallað sé um kynlíf gagnkynhneigðra á einni opnu þá sé fjallað um kynlíf samkynhneigðra á annarri opnu. Ræða þurfi um hinsegin málefni eins og hluta af venjulegu lífi og tala til hinsegin nemenda eins og þau séu inni í skólastofunni.

Þá hafi kennarar og nemendur verið sammála um að best færi á notkun opins orðalags í kynfræðslu. „Það getur verið svo einfalt að segja sumir eða stundum eða flestir eða oftast,“ segir hún og nefnir sem dæmi að þannig megi segja að mörg ungmenni stundi kynlíf í stað þess að alhæfa að ungmenni stundi kynlíf. „Að reyna að forðast kynjað tungumál þegar það er ónauðsynlegt, sem er alveg merkilega oft. Tala til dæmis um einstaklinga og manneskjur frekar en stelpur og stráka.“

Sólveig Rós segir nemendur vilja sjá meira jafnvægi í kennsluefninu.
Sólveig Rós segir nemendur vilja sjá meira jafnvægi í kennsluefninu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert