Mikilvægast að reisa spítalann fljótt

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn

„Ég held því fram að ástandið í heilbrigðisþjónustu landsins kalli á að við reisum nýtt hús yfir Landspítalann þar sem við getum gert það sem fyrst. En það er ekki nóg því að byggingin er bara einn af mörgum vanræktum þáttum heilbrigðisþjónustunnar,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann gerir staðsetningu nýs Landspítala að umtalsefni sínu. Segist hann sammála mörgum röksemdum þeirra sem telja betra að reisa nýjan spítala annars staðar en við Hringbraut í Reykjavík en segir tímasetninguna skipta meira máli en staðsetninguna.

„Spítali er ekki bygging heldur allt sem þarf til þess að annast þá sem eru sjúkir og meiddir að því marki að það þyki ekki réttlætanlegt að hafa þá heima hjá sér. Sjúkrahúsið er fyrst og fremst starfsfólkið, læknar, hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, röntgentæknar, sjúkraliðar, ræstitæknar og persónan sem smyr samlokurnar í sjálfsalann sem nærir þá sem vinna á vöktum. Ef við ætlum að bæta Landspítalann þannig að hann standist samjöfnuð við það besta í heiminum verðum við að manna hann betur. Við verðum að vera í stakk búin til þess að ráða bestu sérfræðinga á öllum sviðum og halda þeim ánægðum í starfi,“ segir hann.

Vill að sérfræðingar meti málið út frá hraða

Kári segir að útvega verði Landspítalanum bestu fáanlegu tæki og þar megi ekkert til spara. „Við verðum að sjá til þess að Landspítalinn geti keypt sjúklingum sínum bestu fáanleg lyf án tafa. Spítali er einnig skipulag á starfseminni allri. Og síðan þarf spítali að vera í húsi sem fellur að starfseminni og skipulagi hennar. Húsnæði Landspítalans er of lítið og óhentugt; það verður að bæta úr því sem fyrst og þar skiptir hraðinn meira máli en staðurinn. Okkur bráðvantar nýtt húsnæði yfir spítalann og til þess að fá það sem fyrst þurfum við örugglega að fórna ýmsu,“ segir hann og bætir við að spítalinn fljótt á næstbesta stað sé betri en seinna á besta stað.

„Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að sjúkir og meiddir á Íslandi séu á vergangi. Þess vegna held ég að þótt það væri gagnlegt að svara spurningunni um það hvar nýju húsi yfir spítalann væri best komið fyrir sé það miklu mikilvægara að ákvarða hvar væri hægt að reisa það sem fyrst,“ segir Kári og vill fá færustu sérfræðinga landsins til þess að meta hvort reisa mætti nýjan Landspítala fljótar við Hringbraut en annars staðar vegna þeirra undirbúningsvinnu sem þegar hafi farið fram. Ef svarið við því verði neikvætt sé hægt að velja annan og betri stað. Annars ekki.

Nálægð við Háskóla Íslands skiptir ekki máli

„Það er mikilvægt í þessu samhengi að gera sér grein fyrir því að aðrar röksemdir en hraðinn, sem hafa verið notaðar til stuðnings við Hringbrautarstaðsetninguna eins og nánd við Háskólann, eru í besta falli hlægilegar. Bestu háskólar í heimi eru miklu fjær sjúkrahúsum sínum en Ártúnsbrekkan er Háskóla Íslands og sá háskóli sem metinn var bestur í heiminum um daginn er engum spítala tengdur, þannig að ekki ætti svolítið meiri fjarlægð milli Landspítala og Háskóla Íslands að skaða háskólann. Og eitt er víst að ekki myndi spítalinn þjást þótt Háskóli Íslands yrði fluttur norður á Melrakkasléttu,“ segir hann ennfremur og lýkur síðan greininni á eftirfarandi orðum:

„Það sem skiptir máli er að leysa húsnæðisvanda Landspítalans hratt og vel og gera sér grein fyrir því að húsnæðið er bara lítill hluti vandans. Hitt getum við byrjað að laga á meðan grunnurinn að húsinu er enn ógraf inn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert