Fyrsta skrefið tekið að nýjum velli í Laugardal

Svona gæti nýr Laugardalsvöllur litið út.
Svona gæti nýr Laugardalsvöllur litið út. Teikning/Bj. Snæ arkitektar

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur ráðið þýska fyrirtækið Lagardére til að gera fyrir sig  hagkvæmnisáætlun fyrir framtíð Laugardalsvallar. Áður var KSÍ búið að láta fyrirtækið Borgarbrag vinna forhagkvæmnisáætlun fyrir sig og mun Borgarbragur verða þýska fyrirtækinu innan handar. Skýrslan á að verða tilbúin í ágúst. Engin kostnaðaráætlun er komin eða tímasetning á nýjum velli. Aðeins er verið að kanna hvort nýr völlur geti staðið undir sér. KSÍ boðaði til blaðamannafundar í gær þar sem þetta kom fram.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, ítrekaði vilja sinn á fundinum að hlaupabrautir Laugardalsvallar færu. Hann sagði einnig að þetta skref væri stórt fyrir KSÍ en á endanum væri það Reykjavíkurborg sem réði hver framtíð vallarins væri enda ætti borgin Laugardalsvöll. Komið hefur fram að KSÍ vilji kaupa Laugardalsvöllinn af borginni. Hann benti á að fimm heimaleikir karla og kvenna landsliðanna stæðu ekki undir nýjum velli heldur yrðu að koma byggingar sem gætu borið sig. Nefndi hann hótel, veitingastaði og bari í því samhengi og jafnvel kæmi ÍSÍ inn í hlutina.

Skynsamlegt að halda áfram

„Við viljum leikvang sem mætir nútímakröfum í knattspyrnu en líka gæti hann tekið að sér ýmsa aðra viðburði og yrði svokallaður fjölnota leikvangur. Skýrsla Borgarbrags sýndi að það var skynsamlegt að halda áfram með þetta verkefni og það ætlum við að gera.

Það er þó ljóst að á þessu sviði höfum við ekki þekkingu á Íslandi til að gera þetta og þess vegna leituðum við til Lagardére,“ segir Geir.

Lagardére hét áður Sport 5 og hefur lengi verið í samstarfi við KSÍ. Ulrik Ruhnau, varaforseti vallar- og leikvangamála hjá Lagardére, sagði engar hugmyndir komnar á blað, vinnan væri rétt að hefjast, en hann væri bjartsýnn fyrir gerð áætluninar því hér væri mikið af tækifærum. Fyrirtækið hefur byggt fjölda valla og rekur um 100 knattspyrnuvelli víðs vegar um Evrópu og Skandinavíu, sem og í Bandaríkjunum og Brasilíu. „Okkar hugmynd er að klæðskerasníða svæðið og tryggja stöðuga innkomu. Við þurfum að sjá hvað er hægt að gera og gera það með réttum hætti. Við rekum velli á mörgum stöðum af ýmsum stærðum og gerðum. Þar eru kannski 20-25 fótboltaleikir á ári en önnur starfsemi ber sig,“ segir Ruhnau.

Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag segir að ferlið verði langt og dýrt og næstu skref séu að borgin þurfi að taka ákvörðun. „Borgin kemur ekki nálægt þessum samningi en er meðvituð um hann.“ Geir bætti við að honum fyndist að KSÍ ætti að eiga fyrsta skrefið og nú hefði það verið tekið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert