Minjastofnun kærir Mannverk

Exeter-húsið áður en það var rifið.
Exeter-húsið áður en það var rifið.

Minjastofnun Íslands hefur ákveðið að kæra verktakafyrirtækið Mannverk vegna niðurrifs á hinu svokallaða Exeter-húsi við Tryggvagötu og mun rannsóknarlögreglan fara með rannsókn málsins.  

„Við áttum góðan fund með Mannverki. Við gerðum þeim grein fyrir því að við munum láta rannsaka þetta mál en við ætlum í sameiningu að vinna eins vel úr þessu og við getum,“ segir Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands.

Hún segir að Mannverk muni sjá um að byggja húsið aftur í upprunalegri mynd út frá byggingarnefndarteikningum. „Þeir og við munum reyna að leysa þann hluta málsins eins farsællega og við getum.“

Reykjavíkurborg mun ákveða hvenær hafist verður handa við uppbyggingu hússins.

Svona mun götumyndin við Tryggvagötu líta út eftir að húsið …
Svona mun götumyndin við Tryggvagötu líta út eftir að húsið verður endurreist. Mynd/Aðsend

Mannverk fékk frest til 18. apríl til að gera betur grein fyrir máli sínu vegna niðurrifs hússins, sem var friðað.

Svarið til Minja­stofnunar barst í tæka tíð en fram að því hafði eina svarið sem stofnunin fékk síðan Mannverk lét rífa húsið verið yfirlýsing sem var send út til fjölmiðla.

Þar bað fyrirtækið Minjastofnun, byggingaryfivöld og almenning afsökunar á skorti á aðgát þegar það ákvað að rífa húsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert